Segir ekki um misferli að ræða

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundi borgarráðs í gær.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á fundi borgarráðs í gær. mbl.is/Eggert

„Innri endurskoðun hefur beinlínis það hlutverk, ef að grunur vaknar um saknæmt athæfi, að vísa því til viðkomandi yfirvalda. Það var ekki gert í þessu tilviki – og þó það sé bent á fjölmörg mistök í skýrslunni þá er það ein af meginniðurstöðum hennar að þarna hafi ekki verið um misferli að ræða,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is.

Hann segir að bókun borgarfulltrúans Vigdísar Hauksdóttur, um að hún og Kolbrún Baldursdóttir ætli að standa sameiginlega að tillögu á næsta borgarstjórnarfundi um að vísa skýrslu innri endurskoðunar um framkvæmdir við Nauthólsvegi 100 til embættis héraðssaksóknara til frekari rannsóknar, hafi verið „skellt fram“ undir lok borgarráðsfundar í gær.

„Ég geri ráð fyrir að við sjáum hvaða tillögu hún og Kolbrún ætla sér að leggja fyrir borgarstjórn og bregðumst við því á þriðjudaginn,“ segir Dagur, sem segir innri endurskoðanda hafa skilað fullbúinni skýrslu fyrir jól, ásamt bréfi þar sem sagði að skýrslan væri fullnægjandi til að draga þær ályktanir sem þyrfti til þess að vinna að umbótum hjá borginni.

„Það að einhverjir kjörnir fulltrúar haldi öðru fram byggir þá ekki á skýrslunni, heldur bara á vilja þeirra til að standa þannig að umræðunni,“ segir Dagur.

mbl.is

Bloggað um fréttina