Verkföll ekki óskastaða nokkurs manns

Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, segir það ekki óskastöðu nokkurs að kjaraviðræður …
Forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, segir það ekki óskastöðu nokkurs að kjaraviðræður endi í verkföllum og að ríkisstjórnin sé reiðubúin til þess að greiða fyrir samningum. mbl.is/Eggert

Ekki hefur verið rætt um ferðaþjónustuna sérstaklega innan ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamningsviðræðna sem nú eru í gangi eða áhrif verkfalla á þá grein fram yfir aðrar greinar, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is.

Í gær var haft eftir framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, Jóhannesi Þór Skúlasyni, að verkföll geti reynst ferðaþjónustunni erfið og að svigrúmið til launahækkana í ferðaþjónustu sé líklega minna en í öðrum atvinnugreinum.

Sagði hann stöðuna með þeim hætti að kæmi til verkfalla gæti farið svo að einhver fyrirtæki myndu hætta rekstri.

„Það er alveg ljóst að verkföll eru ekki óskastaða nokkurs manns. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sagt að við séum reiðubúin að greiða fyrir ef hyllir í samninga og við höfum átt hér gott samráð við verkalýðshreyfinguna. Það eru tiltekin atriði sem þau hafa lagt mikla áherslu á,“ segir Katrín.

Hún vísar meðal annars til húsnæðismála og nefnir átakshóp stjórnvalda um málaflokkinn sem mun skila sinni vinnu síðar í þessum mánuði. Bendir Katrín einnig á félagslegt undirboð og segir von á tillögum í þeim málaflokki á næstunni.

„Síðan er það sú yfirlýsing okkar að þær skattkerfisbreytingar sem gerðar verða muni gagnast sérstaklega lágtekju og lægri millitekjuhópum,“ segir forsætisráðherra og bætir við að ríkisstjórnin hafi „lagt á það áherslu að greiða fyrir því sem við getum svo fremi sem samningar náist, en eins og ég segi þá er það ekki ósk nokkurs manns að komi til harðvítugra deilna.“

Ríkari áhrif á ferðaþjónustu

„Ferðaþjónustan er mjög mannaflsfrek atvinnugrein þannig að slíkar aðgerðir [verkföll] myndu hafa mikil áhrif á atvinnugreinina,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, við mbl.is.

Þórdís segir sterkara gengi, launahækkanir og fleiri þætti hafa breytt rekstrarumhverfi fyrirtækja í ferðaþjónustu sem getur gert það að verkum að verkföll geta haft ríkari áhrif.

„Þess vegna vona ég að það verði ekki, en tek undir þær áhyggjur að ef af því verður þá mun það hafa áhrif á greinina og þar með samfélagið allt.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert