Ekki í bakið á Ingu

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, segist ekki vera að koma í …
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, segist ekki vera að koma í bakið á Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, í upptökunum á barnum Klaustri þar sem hann hafi aðeins sagt hluti sem hann hafi þegar tjáð henni. Samsett mynd

„Ég er að svara því hvers vegna ég sagði þetta um formanninn í þessari upptöku á þessum bar,“ segir Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, í samtali við mbl.is um aðsenda grein í Morgunblaðinu þar sem hann gagnrýnir Ingu Sæland, formann Flokk fólksins.

Hann segist marg ítrekað gert athugasemdir við það hvernig haldið er á fjármálum flokksins og talið óeðlilegt að formaður þess sé jafnframt gjaldkeri og prókúruhafi. „Ég hef mótmælt þessu og var borinn ofurliði í stjórninni,“ útskýrir Karl Gauti.

Þingmaðurinn segir einnig með öllu óeðlilegt að ráðinn sé inn fjölskyldumeðlimur stjórnmálaleiðtoga til þess að starfa á skrifstofu flokksins, en hann útskýrir það ekki frekar í samtali við blaðamann.

Spurður hvort orð hans séu nú að koma fram vegna ósætti í kjölfar þess að honum var vísað úr Flokki fólksins, segir Karl Gauti svo ekki vera. Hann hafi ekki sagt neitt um sinn formann  á barnum Klaustri sem hann hafi ekki þegar sagt við hana sjálfa og á fundum flokksins.

„Ég er ekkert að koma í bakið á formanninum í þessum upptökum á þessum bar. Ég hef tjáð henni þetta, við hana sjálfa, líka í stjórninni og líka í þingflokknum,“ segir Karl Gauti.

Hann segist jafnframt ekki hafa tjáð sig opinberlega um þær athugasemdir sem hann hafi gert innan flokksins allan þann tíma sem hann starfaði með flokknum, en gerir það nú þar sem hann ekki lengur er flokksbundinn.

Í umræddum upptökum sagði Karl Gauti meðal annars Ingu ekki ráða við að stjórna Flokki fólksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert