Foreldrar senda röng skilaboð

Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á BUGL.
Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á BUGL. Eggert Jóhannesson

„Þetta er einkum tvenns konar áhrif sem við höfum áhyggjur af. Annars vegar áhrif þessarar sjónrænu oförvunar og svo líka hvaða góðu virkni er ýtt í burtu vegna þess að barnið er í skjátækjunum,“ segir Björn Hjálmarsson, sérfræðilæknir á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, BUGL í viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Björn segir vísindasamfélagið ekki hafa tekið nægilega við sér og rannsakað til hlítar afleiðingar mikillar skjánotkunar og kallar eftir lýðheilsurannsókn á áhrifum of mikils skjátíma á börn og unglinga.

Síðasta sumar skilgreindi alþjóðaheilbrigðistofnunin, WHO, tölvuleikjafíkn sem nýja tegund af geðröskun. Þá er talað um rafrænt skjáheilkenni, sem er nýyrði sem lýsir skaðlegum einkennum ofnotkunar á snjalltækjum og er þá hugsanlegt forstig af því sem getur þróast út í fíkn.

„Það er frumkvöðull vestanhafs, Vikctoria L. Duncley, geðlæknir í Los Angeles, sem kom fyrst fram með þetta fyrirbæri, sem er þegar börn og unglingar fara yfir þau mörk í skjátækjum sem þau þola þannig að það fer að koma niður á líðan þeirra, svefni og hegðun,“ segir Björn.

„Þótt rafrænt skjáheilkenni sé ekki formlega viðurkennd greining innan greiningarkerfanna eru þau einkenni sem birtast hjá börnum ef þau fara yfir þolmörk sín í skjátímanum og Victoria Dunckley bendir á í skrifum sínum þó velþekkt. Vísindasamfélagið hefur bara í raun ekki tekið við sér og rannsakað þetta fyrirbæri og þetta ferli til hlítar. Þegar farið er yfir þessi þolmörk fer að bera á reiði, pirringi, kvíði getur aukist og barnið staðið sig almennt verr í því að mæta kröfum fullorðna fólksins.“

Upplifa höfnun ef mamma og pabbi eru alltaf í símanum

Afar misjafnt hvernig gengur að halda utan um skjátíma barna og unglinga en stór hluti barna er langt umfram þann hámarkstíma sem bandarísku barnalæknasamtökin ráðleggja í skjátækjum. Þannig virðist vera að í sterku fjölskyldunum, þar sem er gott utanumhald og báðir foreldrar til staðar, takist betur að stýra þessari notkun og hafa áhrif á hana. 
„Við erum svolítið í lausu lofti hvernig á að takast á við þessa nýju tækni. Hún er frábær út af fyrir sig, nýtist okkur vel þegar hún er notuð skynsamlega, hóflega og hún verður að vera stýrð því börn hafa ekki þroska til að taka sjálf ábyrgð á því,“ segir Björn sem segist finna fyrir vitundarvakningu í samfélaginu og fólk sé tilbúið í gott samtal um þetta mikilvæga mál en sömuleiðis sé þetta mál foreldranna, að þeir leggi skjátæki frá sér.

„Eitt af því sem okkur er mjög hugleikið inni á BUGL er tengslamyndun barna og unglinga en barn getur upplifað sára höfnun ef mamma og pabbi eru alltaf í símanum. Foreldarnir eru þá ekki til staðar og eru þar að auki slæmar fyrirmyndir. Barninu finnst að það hljóti sjálft að þurfa að vera í snjalltæki til að fá þá örvun í lífinu sem það þarf.“

Umfjöllunin í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert