Fullt tilefni til að ræða framúrkeyrslur

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., var ómyrkur í máli við …
Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., var ómyrkur í máli við formlega opnun Vaðlaheiðarganga í dag. mbl.is/Þorgeir

Hilmar Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., ræddi m.a. um framúrkeyrslu og áætlanagerð í ávarpi sem hann hélt við formlega opnun Vaðlaheiðarganga í dag.

Hilmar sagði m.a. að áætlanagerð væri mikilvæg í verkefnum eins og þessum og sagði fróðlegt í verklok að fara yfir þær áætlanir sem voru gerðar. 

Líklegur kostnaður um 50% hærri en gert var ráð fyrir

„Það er fullt tilefni til að ræða um framúrkeyrslur. Við hjá Vaðlaheiðargöngum viljum leggja okkar á vogarskálar þess að við lærum af þessu verkefni. En það gerum við helst ef við tölum um staðreyndir. Staðreyndin er sú, að líklegur kostnaður við Vaðlaheiðargöng er 50% hærri en kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir, séu báðar tölur hafðar á sama verðlagi, 50%. 50% er vissulega há tala og við vitum öll hér af hverju kostnaður varð hærri en ætlað var. Hér er ekki ætlunin að skýla sér á bak við einstök áföll. Eingöngu að draga fram þá staðreynd, að kostnaður, að meðtöldum áföllnum vöxtum á framkvæmdartíma, er 50% hærri en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Og þá er ekki verið að velja forsendur sem fegra stöðuna,“ var á meðal þess sem kom fram í máli Hilmars sem sagði í framhaldinu stóru spurninguna vera hvort það muni ganga að endurgreiða lán sem tekin hafa verið vegna verkefnisins. Það yrði framtíðin að skera úr um,“ sagði Hilmar.

Var einnig þakklátur

Einnig kom Hilmar inn á að göngin gerðu Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur að öflugra atvinnusvæði og því fylgdi ekki einungis möguleikar á hagræðingu, betri þjónustu og sparnaði heldur einnig möguleikar á að taka við stærri og kröfuharðari viðskiptavinum, aðilum sem ella hefðu aðeins talið sér fært að starfa „í þéttbýlinu sunnan heiða“.

Loks sagði Hilmar: „Eitt hafa þessi göng ekki kostað og fyrir það vil ég þakka. Þau hafa ekki, þrátt fyrir ýmis áföll, kostað okkur mannslíf eða örkuml þeirra sem hér hafa starfað. Það er auðvitað ómetanlegt. Alveg eins og það verður ómetanlegt ef sú von okkar gengur eftir, að göngin spari mannslíf og tryggi öruggari samgöngur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert