Karl Gauti enn á Klaustri

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður …
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, og Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður eru ekki sammála gagnrýni Karls Gauta Hjaltasonar sem birt var í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér datt nú eiginlega í hug að hann væri enn þá á Klausturbarnum og væri að skrifa greinina þar, vegna þess að hún er í þeim anda,“ segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, í samtali við mbl.is um aðsenda grein Karls Gauta Hjaltasonar þingmanns, í Morgunblaðinu í dag.

„Hann segist hafa verið með samstarfsmönnum sínum á barnum og það voru ekki ég og Inga, þannig að samstarfsmenn hans eru greinilega þingflokkur Miðflokksins,“ segir Guðmundur.

Þá fullyrðir hann að það sé ljóst að ástæða þess að Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson voru á barnum Klaustri ásamt þingmönnum Miðflokksins hafi verið í þeim tilgangi að ganga til liðs við flokkinn. „Þeir voru að svíkja okkur.“

Vísar gagnrýni Karls Gauta til föðurhúsanna

Guðmundur staðhæfir að Karli Gauta sé kunnugt um að hann fari með rangt mál í grein sinni í Morgunblaðinu. „Mér finnst það alveg með ólíkindum að hann sé að segja það sem hann segir þarna.“

„Hann er eitthvað að kvarta undan fjármálunum hjá okkur, en hann var í stjórninni og fékk alla reikninga og allt. Það er ekkert sem hægt er að segja að sé eitthvað rangt og hann gerði aldrei neinar athugasemdir,“ segir þingflokksformaðurinn.

Hann sakar Karl Gauta um að ráðast á fólk sem er í sjálfboðavinnu. „Hann er greinilega eitthvað mjög svekktur.“

Guðmundur segir einnig að fyrrverandi flokksbróðir hans sé að ráðast á Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, fyrir að vera með prókúru flokksins „sem er ekki rétt, því hún er ekki gjaldkeri. Við erum með þriggja manna fjármálastjórn. Við erum í góðum plús og pössum vel upp á fjármálin.“

Þá telur hann ekki rétt hvernig rætt er um ráðningu sonar Ingu á skrifstofu flokksins. „Það var stjórnin og kjördæmaráðið sem ákvað að ráða son Ingu vegna þess að við þurftum mann sem gat tekið allt að sér, heimasíðu og allt,“ segir Guðmundur.

„Hann var búinn að sýna það í sjálfboðavinnu hversu góður hann var og sýndi okkur hvernig hægt væri að breyta heimasíðunni og svoleiðis. Um er að ræða frábæran einstakling sem við í stjórn og kjördæmaráði erum búin að ráða í vinnu,“ útskýrir Guðmundur og tekur sérstaklega fram að Inga hafi ekki komið að ráðningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina