Nítján stiga frost í vændum

Ekki var með öllu mannlaust á Klambratúni þegar ljósmyndari mbl.is …
Ekki var með öllu mannlaust á Klambratúni þegar ljósmyndari mbl.is leit þar við í morgun. Úlpa og góðir skór koma líklega að góðum notum á næstunni. mbl.is/​Hari

Á meðan sumir borgarbúa blótuðu veðrinu fögnuðu aðrir þegar loksins tók að snjóa í höfuðborginni í morgun. Víða um land gerði Vetur konungur vart við sig og ljóst er að teikn eru á lofti um að hann ætli að hefja vetursetu sína fljótlega.

Hæglætisveður verður á stórum hluta landsins á morgun ef spár Veðurstofu Íslands rætast en búast má við að á suðvesturhorninu fari hiti aftur yfir frostmark seint á mánudag með tilheyrandi úrkomu og slyddu.

Á miðvikudag er hins vegar útlit fyrir að hiti taki snögga dýfu því búist er við um fjórtán stiga frosti og sól á höfuðborgarsvæðinu á miðvikudag. Búast má við sextán stiga frosti á Akureyri og nítján stiga frosti á hálendinu á fimmtudag. 

Spurður hvort skíðaáhugafólk geti nú farið að dusta rykið að klossunum og stöfunum sagði veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is það ekki útilokað, enda mætti búast við því að þrátt fyrir að úrkoma á höfuðborgarsvæðinu yrði í formi rigningar, yrði hún líklega í formi snjókomu í Bláfjöllum.

Veðurvefur mbl.is

Þessi hjólreiðakappi var vel búinn og með viðeigandi öryggisbúnað þegar …
Þessi hjólreiðakappi var vel búinn og með viðeigandi öryggisbúnað þegar hann hélt í hjólreiðatúr í morgun. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert