Öllum dekkjunum stolið undan bílnum

Danny hefur búið á Íslandi í fjölmörg ár en aldrei …
Danny hefur búið á Íslandi í fjölmörg ár en aldrei séð neitt þessu líkt. Ljósmynd/Aðsend

Bretinn Danny T. Kaze var vakinn af nágranna sínum síðasta sunnudag og við honum blasti furðuleg sjón á bílastæðinu fyrir utan heimili hans í Breiðholti, en öllum fjórum dekkjunum hafði verið stolið undan bíl hans.

„Ég kom heim klukkan eitt um nóttina og nágranni minn vakti mig klukkan átta svo þetta hefur gerst yfir hánótt,“ segir Danny í samtali við mbl.is, en hann vakti athygli á málinu á Facebook-síðu sinni og hefur fengið mikil viðbrögð.

Hann hefur búið á Íslandi í ellefu ár en aldrei séð neitt þessu líkt og segir þetta helst líkjast einhverju sem gerist í bíómyndum. Hann tilkynnti lögreglu um málið sem að sögn Dannys staldraði stutt við. Þá vildi tryggingafélag Dannys lítið fyrir hann gera, enda ekki um innbrot eða árekstur að ræða.

Ódýr dekk undan smábíl, til hvers?

„Þetta er líka skrýtið því þessi dekk kosta ekki mikið,“ segir Danny, en bíllinn sem um ræðir er eldri smábíll af gerðinni Volkswagen Fox. Sjálfur hafi hann keypt notuð dekk á um 30 þúsund krónur. „Til hvers að stela dekkjunum undan mínum bíl, en ekki einhverjum dýrari?“

„Ég vildi vekja athygli á þessu svo fólk verði á varðbergi og svo þetta komi ekki fyrir aðra,“ segir Danny.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert