Dauðafæri fyrir stjórnvöld

Drífa Snædal forseti ASÍ og Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Viðskiptaráðs, …
Drífa Snædal forseti ASÍ og Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Viðskiptaráðs, ræddu kjaramál í þættinum Þingvellir.

Kon­ráð S. Guðjóns­son, hag­fræðing­ur Viðskiptaráðs, sagði nú vera dauðafæri fyrir stjórnvöld að ganga fram með góðu fordæmi og hækka ekki laun næsta árið. Konráð lét þessi orð falla hjá Björt Ólafsdóttur í þættinum Þingvöllum á K100, þar sem hann ræddi kjaramál og stöðu launafólks ásamt Drífu Snæ­dal, for­seta ASÍ.

Konráð sagðist skilja afstöðu ASÍ varðandi launahækkanir Kjararáðs undanfarin ár og kvað Viðskiptaráð ítrekað hafa bent á vandann sem fylgdi kjararáði og nú þyrfti að vinda ofan af úrskurðum stofnunarinnar.

Stjórnvöld geti því til að mynda gengið fram með góðu fordæmi og haldið launum föstum í ár að minnsta kosti. „Þannig að þau sitji í skammarkróknum,“ sagði Konráð.

„Sérstaklega stjórnmálamennirnir,“ bætti hann við. „Þetta er dauðafæri fyrir stjórnvöld að mínu mati.“

Björt benti þá að stjórnendur margra ríkisstofnanna teldu sig ekki hafa það of gott.

„Fólk er stundum veruleikafirrt á eigin stöðu,“ svaraði Drífa þá til og kvað þann hóp sem margir hafi getað farið í gegnum lífið án þess að taka eftir nú vera orðinn sýnilegan. „Það þarf að bregðast við,“ sagði hún og rifjaði upp að hafa setið við samningaborð, þar sem því hafi verið haldið var fram að það væru bara unglingar sem væru á lægstu laununum.

Komin tími til að ræða launabilið

Drífa benti á að umræðan um launabilið hefði ekki verið tekin áratugum saman. „Ríkið sem atvinnurekandi hefur farið fremst í flokki með að auka misrétti,“ sagði hún og benti á að forseti Íslands væri í dag með tíföld laun á við þá lægst launuðu. Ekki þyrfti að fara langt aftur í tímann til að finna mun minni tekjumun. „Þol okkar á launamisrétti hefur aukist mikið,“ sagði Drífa.

„Mér finnst að ríkið eigi að setja launastefnu á hvað er sanngjarnt og launabil á að vera sýnilegt innan fyrirtækja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert