Ríkið selji Íslandsbanka

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vill hefja söluferli á Íslandsbanka …
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vill hefja söluferli á Íslandsbanka á þessu kjörtímabili. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að ríkið verði að draga sig út úr umfangsmiklu eignarhaldi sínu á bönkunum, selja Íslandsbanka og halda eftir 35-40% hlut í Landsbankanum. Þetta kom fram í viðtali við ráðherrann í kvöldfréttum RÚV.

Íslenska ríkið er eini eigandi Íslandsbanka og á rúmlega 98 prósenta hlut í Landsbankanum. Í hvítbók um fjármálakerfið sem var kynnt í desember voru stjórn­völd hvött til að huga að því að losa um eign­ar­hluti í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um með heild­stæðum hætti.

Í könnun Gallup sem gerð var í október um traust til bankakerfisins kom hins vegar í ljós að mikill meirihluti almennings er jákvæður gagnvart eignarhaldi ríkisins á bönkunum. Þar kom einnig fram að fólk ber lítið traust til bankakerfisins og að al­geng­ustu orð sem al­menn­ingi dett­ur fyrst í hug til að lýsa banka­kerf­inu á Íslandi eru meðal ann­ars græðgi, spill­ing, okur og hrun.

Bjarni sagði í samtali við fréttastofu RÚV í kvöld að hann vonist til þess að hægt verði að hefja söluferlið á þessu kjörtímabili. Þá vill hann að ríkið verði áfram aðaleigandinn að Landsbankanum, en hlutfallið verði lækkað töluvert, eða niður í 35 eða 45 prósent.

Söluferlið sé hins vegar skammt komið og segir Bjarni að það skipti máli að ferlið verði opið. „Við erum skammt á veg komin með það, næsta skref er að ræða um hvítbókina,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert