165 Austfirðingar sátu fastir í Ölpunum

Hópurinn lenti í Zürich í Sviss 3. janúar og hefur …
Hópurinn lenti í Zürich í Sviss 3. janúar og hefur haft tíu daga til þess að skíða á frábæru svæði. Ljósmynd/Hákon Ernuson

„Við áttum að fljúga frá Zürich klukkan 13 í dag, beint á Egilsstaði, en það varð allt ófært þá leiðina í gærkvöldi,“ segir Hákon Ernuson, sem staddur er í skíðaferðalagi í bænum Livigno á Ítalíu ásamt 164 öðrum Austfirðingum.

Mikil snjókoma hefur verið á svæðinu undanfarna daga og er fjöldi vega ófær vegna snjóflóðahættu.

„Við erum hins vegar með plan B og sitjum hérna í rútum sem vonandi leggja af stað í átt til Mílanó eftir skamma stund,“ segir Hákon í samtali við mbl.is, en ekki er ófært til Mílanó. „Við erum að reyna að drífa okkur af stað svo við getum keyrt í tvo til þrjá tíma í björtu yfir erfiðasta kaflann.“

Ferðaskrifstofa Akureyrar sér um flugið fyrir hópinn, sem samanstendur af krökkum sem æfa skíði í Stafdal og Oddsskarði, ásamt foreldrum, ömmum og öfum. „Þau náðu að breyta fluginu þannig að við fljúgum líklega frá Mílanó til Egilsstaða í fyrramálið,“ segir Hákon.

Hópurinn lenti í Zürich í Sviss 3. janúar og hefur haft tíu daga til þess að skíða á frábæru svæði, að sögn Hákonar. „Þetta er skemmtilegt skíðasvæði, fjölbreytt og hægt að skíða báðum megin dalsins. Svo er maturinn frábær.“

„Það er búið að snjóa alveg gríðarlega síðustu daga og snjóar enn,“ segir Hákon, sem vonast til þess að hópurinn komist heim á Austfirði í fyrramálið.

Mikil snjókoma hefur valdið vandræðum í Ölpunum undanfarnar vikur.
Mikil snjókoma hefur valdið vandræðum í Ölpunum undanfarnar vikur. Ljósmynd/Hákon Ernuson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert