Ákærðar fyrir að veitast að 8 ára dreng

Konurnar veittust að drengnum á skólalóð Síðuskóla í september árið …
Konurnar veittust að drengnum á skólalóð Síðuskóla í september árið 2017. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tvær konur á þrítugsaldri hafa verið ákærðar af embætti héraðssaksóknara fyrir að hafa veist að 8 ára dreng á skólalóð með skömmum og fúkyrðum og neytt hann til að fara upp í bifreið þeirra. Keyrðu þau hann í framhaldi að heimili drengsins.

Er eldri konan ákærð bæði fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot. Fram kemur í ákæru málsins að þær hafi veist að drengnum á skólalóð Síðuskóla á Akureyri í september árið 2017, en þá var hann 8 ára gamall, með skömmum og fúkyrðum og skipað honum að koma með sér. Reif hún í handlegg drengsins og dró hann á eftir sér í átt að bifreiðinni sem konurnar komu á. Ók hin konan svo bifreiðinni að heimili drengsins. Er yngri konan ákærð fyrir hlutdeild í brotum eldri konunnar.

Fer saksóknari fram á að konurnar verði dæmdar til refsingar og til greiðslu sakarkostnaðar. Móðir drengsins fer fram á fyrir hönd hans að fá greiddar 1,5 milljónir í miskabætur ásamt dráttarvöxtum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert