Bíll lenti á hliðinni

Þarna má sjá bílinn sem lenti á hliðinni.
Þarna má sjá bílinn sem lenti á hliðinni. Ljósmynd/Helena Stefánsdóttir

Tveir voru fluttir á sjúkrahús eftir að bíll lenti á hliðinni rétt við Hveragerði í áttina að Kömbunum um hálftvöleytið í dag. 

Auk sjúkrabíls var slökkviliðsbíll frá Brunavörnum Árnessýslu sendur á vettvang ásamt lögreglubíl. Þegar varðstjóri kom á staðinn sátu aðilarnir tveir í bílnum, fastir í bílbeltunum, og þurfti að aðstoða þá við að losa þau.

Þeir voru fluttir á sjúkrahús til frekari skoðunar en meiðsli þeirra virðast hafa verið minni háttar, að sögn Hauks Grönli, varaslökkviliðsstjóra hjá Brunavörnum Árnessýslu.

Haukur hafði einnig heyrt af tveimur bílum sem fóru út af veginum undir Ingólfsfjalli en gat ekki staðfest það. Ekki er talið að slys hafi orðið á fólki í þeim tilfellum. Hann segir töluverða hálku undir Ingólfsfjalli, þæfingsfærð og strekking.

Þessi bíll var fastur við Bláfjallaafleggjarann.
Þessi bíll var fastur við Bláfjallaafleggjarann. Ljósmynd/Helena Stefánsdóttir

Bíll fór einnig út af veginum við Bláfjallaafleggjarann á leiðinni austur en engar fregnir hafa borist af því hvort slys hafi orðið þar á fólki.

Haukur bendir á að vegir hafi verið auðir undanfarið og dekk geti verið full af tjöru. Hvetur hann fólk því til að hreinsa dekkin vel svo að þau geti tekist betur á við snjóinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert