Dramatísk saga sem ei má gleymast

María. „Heimsókn á kaffihúsið á að vera upplifun og ég …
María. „Heimsókn á kaffihúsið á að vera upplifun og ég fer alltaf í gamlan búning hjúkrunarfræðings og set á mig mig kappa þegar ég stend vaktina.

„Ég hef aldrei verið eins sannfærð um neitt sem ég hef gert í lífinu eins og þetta. Stundum held ég að það sé að baki mér her af látnum berklasjúklingum að stýra þessu,“ segir María Pálsdóttir leikkona sem undanfarin þrjú ár hefur unnið af hugsjón að því að opna berklasetur á Kristneshælinu í Eyjafirði.

Og nú sér til lands, hún opnaði í sumar kaffihús í húsnæðinu þar sem varanleg sýning verður opnuð í sumar. „Þetta eru æskustöðvar mínar, ég ólst upp á bænum Reykhúsum sem tilheyrir því þorpi sem Kristnesið er. Þegar ég var ung vann ég sem gangastúlka á hælinu, en þá hafði því verið breytt í elliheimili.

Nú svíður mér að sjá þorpið mitt drabbast niður, þessi hús sem voru falleg og vel við haldið þegar ég var að alast upp. Ég vil ekki að Kristnes breytist í draugaþorp og sveitungar mínar vilja það ekki heldur, svo ég ákvað að fara af stað í þessa vegferð. En það þarf að hafa fyrir þessu, ég gefst ekkert upp í því að sækja um styrki þó ég hafi fengið mörg nei, og nú hef ég landað nokkrum slíkum, safnast þegar saman kemur. En þetta hefði aldrei verið hægt nema af því ég hef unnið þetta undirbúningsstarf í sjálfboðavinnu í þrjú ár. Og þetta er líka að verða að veruleika vegna hjálpar frá öllu því góða fólki sem hefur lagt mér lið, fólkið í sveitinni stendur með mér, verktakar grafa skurði og búa til bílastæði, fólk flykkist að til að mála, smíða, saga og gera og græja. Þetta er ótrúlega falleg samvinna og skemmtileg.“

Bað um að vera hogginn

Kristneshæli í árdaga.
Kristneshæli í árdaga.

María segir að berklahælið hafi verið vígt árið 1927 og gegnt því hlutverki þar til berklarnir hurfu af sjónarsviðinu á sjöunda áratugnum.

„Engin lyf voru til gegn berklum fyrr en árið 1950, fram að því má segja að hælið hafi nánast verið e.k. fordyri dauðans, svo fáir læknuðust að það var nánast dauðadómur að leggjast inn á Kristneshæli. Einu lækningaaðferðirnar voru hollt mataræði, gott húsaskjól, hreyfing, hvíld og frískt loft. Reyndar var svo farið að fella saman berklaveiku lungun með blásningu, brennslu eða höggningu og það voru hrikalegar hrossalækningar. Þörfin fyrir hæli hér fyrir norðan var mikil því berklarnir lögðust þungt á Eyjafjörð, það varð að taka fólk úr umferð og einangra það því smithætta var mikil.“

Á Kristneshæli dvaldi berklaveikt fólk á öllum aldri og einnig mörg börn.

Tilfinningar voru eðlilega heitar hjá fólki á hælinu.
Tilfinningar voru eðlilega heitar hjá fólki á hælinu.


„Berklarnir voru skelfilegur sjúkdómur sem lagðist þungt á ungt fólk, margir voru um tvítugt. Þetta er dramatísk og mögnuð saga sem má ekki gleymast. Ég hef safnað að mér heilmiklum heimildum en persónulegu sögurnar finnst mér dýrmætastar, til dæmis sendibréf til foreldra frá berklaveikum börnum og dagbækur berklasjúklinga. Fólk hefur komið til mín með sendibréf, albúm og fleira, því það vill vita af þessum hlutum á góðum stað þar sem aðrir geta notið. Berklar tengdust eðli málsins samkvæmt oft miklum harmi innan fjölskyldna og oft var sú saga þögguð niður því smithræðslan var svo mikil að fólk var ekkert að gaspra um það ef það hafði legið með berkla og læknast,“ segir María og vitnar í Sigurbjörn Sörensson sem dæmi um hvernig það gat verið fólki til trafala ef það hafði fengið berkla. „Bjössi er enn á lífi og býr á Húsavík og ég tók viðtal við hann, en þegar hann hafði veikst nokkrum sinnum af berklum var hann orðinn svo leiður á að vera sendur aftur og aftur á berklahælið að hann bað um að vera hogginn. Þetta er mögnuð frásögn hjá Bjössa því staðdeyfingin mistókst í aðgerðinni. En þegar hann var orðinn heilbrigður og ætlaði aftur í bifvélanámið sem hann hafði verið byrjaður í, þá var hann beðinn um að taka tillit til hinna ungu mannanna sem voru í náminu, og vinsamlegast draga sig í hlé. Þetta fannst honum erfiðasta höfnunin, að fá ekki að taka þátt í því sem hann var byrjaður á.“

María segir þónokkra vera enn á lífi sem voru á hælinu, en þeim fari ört fækkandi. „Fólk sem var á hælinu sem börn upp úr 1960 er samt enn á lífi og ég hef tekið viðtöl við það. Lyf sem læknuðu berklana voru á þeim tíma komin til sögunnar og hælið því ekki sá dauðastaður sem það var áður, þessi hrikalega hræðsla við berkla var þá horfin.“

Stóð vörð meðan kelað var

Rómantíkin tók oft völdin hjá fólki á Kristneshælinu.
Rómantíkin tók oft völdin hjá fólki á Kristneshælinu.

Berklar voru kallaðir rómantíska veikin og María segir að ungt fólk sem kom á hælið fyrir 1950 hafi margt gefið lítið fyrir siðareglur, enda vissi það ekki hvort það næði því að verða þrítugt.

„Þarna urðu til hjónabönd, ástir tókust milli starfsmanna og líka sjúklinga, ástin blossaði upp í öllum myndum. Sigurveig Jónsdóttir leikkona sem nú er látin, sagðíst hafa orðið rík af því að vera á hælinu, þá átta ára gömul, en hún var fengin til að standa vörð og njósna á meðan sjúklingarnir skelltu sér inn í kompu til að kela. Hún fékk 25 aura fyrir hvert skipti,“ segir María og hlær og bætir við að talið sé að ýmsar tískusveiflur komi beint frá berklaveikinni. „Til dæmis þegar fólk fór að mála sig dökkt í kringum augun, því það þótti smart að vera veiklulegur og baugóttur, eins og raunin var með berklasjúklinga. Tíska kinnalitarins er rakin til þess að berklasjúklingar voru svolítið rjóðir í kinnum. Pilsfaldur stúlkna styttist í kjölfar berklanna, því berklabakterían gat lifað í gólfinu og þyrlast upp með fólki. Bakterían gat líka leynst í síðu skeggi karla, svo skeggtíska breyttist með tilkomu berkla.“

Verður safn tilfinninganna

Að grípa í gítar gat stytt stundir hinna veiku á …
Að grípa í gítar gat stytt stundir hinna veiku á hælinu.

María segist vera búin að sætta sig við að hún geti ekki gert allt í einu, en vonast til að geta opnað sýninguna með pomp og prakt í sumar.

„Þetta tekur tíma, það þarf að gera við glugga, mála, brjóta veggi og fleira. Ég geri þetta í frítíma mínum því ég er líka að leika hjá Leikfélagi Akureyrar, ég get ekki alveg snúið baki við leiklistinni þó Hælið eigi vissulega hug minn allan. Það er ekki hlaupið að því að hanna svona stóra sýningu sem er jú hjartað í hugmyndinni og þar langar mig að vanda mig mikið. Ég er komin með sýningarhönnuð í lið með mér, Auði Ösp Guðmundsdóttur og við erum alveg sammála um að það þarf ekki að vera með allar nútíma tæknilausnir til að gera æðislega sýningu. Þetta er sögulegt og gamalt og það má og á að gefa sér tíma, setjast niður og spá og spekúlera. En ég get lofað að þessi sýning verður sterk upplifun, þetta verður safn tilfinninganna,“ segir María og tekur fram að hún sé ekki með kaffihúsið og sýningarrýmið í aðalbyggingunni, sjúkrahúsinu eða hælinu sjálfu, því þar er fólk í endurhæfingu á vegum Sjúkrahúss Akureyrar. „Ég er í byggingu þar sem annars vegar er stúlknahúsið, heimavist með mörgum herbergjum, og hins vegar íbúð þar sem aðstoðarlæknar eða hjúkrunarfræðingar bjuggu með fjölskyldur sínar. Margt af því fólki hefur komið hingað í pílagrímsferðir til að drekka kaffi í gamla svefnherberginu sínu.“

María hefur sett af stað söfnun á Karolinafund þar sem fólk getur hjálpað henni við að koma berklasetrinu á legg. Heiti verkefnisins: Hælið – setur um sögu berklanna, og finna má á: Karolinafund.com.
Á Kristneshæli.
Á Kristneshæli.
Starfsfólk hælisins notaði hvert tækifæri til að gleðjast.
Starfsfólk hælisins notaði hvert tækifæri til að gleðjast.
Tilfinningar voru eðlilega heitar hjá fólki á hælinu.
Tilfinningar voru eðlilega heitar hjá fólki á hælinu.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert