Mikið álag á bráðamóttöku vegna hálku

Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítala í dag.
Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítala í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hátt í tuttugu manns hafa leitað á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi með beinbrot eftir að hafa runnið í hálku í dag. Mikið álag er á deildinni og fá pláss til þess að sinna nýjum sjúklingum, en yfir tuttugu sjúklingar liggja á bráðadeildinni og bíða innlagnar á aðrar deildir spítalans.

Jón Magnús Kristjánsson yfirlæknir á bráðadeild segir í samtali við mbl.is að dagurinn í dag hafi verið fyrsti alvarlegi hálkudagur vetrarins. „Það hafa komið ansi margir sem hafa runnið og meitt sig,“ segir Jón Magnús og bætir við að á milli 15-20 einstaklingar hafi komið beinbrotnir á bráðamóttökuna eftir hálkuslys.

„Við höfum fá pláss til þess að sinna nýjum sjúklingum, en við höfum bætt við starfsfólki, læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til þess að takast á við þetta aukna álag, þannig að biðin eftir læknisskoðun fyrir alvarlegu tilvikin er ekki aukin, en það er svolítið aukinn biðtími fyrir þá sem eru með vægari áverka eða veikindi,“ segir Jón Magnús, en biðtími þeirra sem eru með vægari áverka eða veikindi var í kringum 90 mínútur síðast þegar hann athugaði málið.

„Við viljum hafa [biðtímann] helst undir hálftíma,“ segir Jón Magnús og segir aðspurður að álagið hafi aðeins minnkað á bráðamóttökunni núna síðdegis. Hann beinir því til fólks að fara varlega, enda sé hálkan lúmsk og bætir við að margir séu að detta þar sem snjór liggi yfir hálkunni.

Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítala.
Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðadeild Landspítala. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert