Hótaði lögregluþjónum lífláti

mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður á þrítugsaldri var fyrir helgi dæmdur í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Suðurlands fyrir brot gegn valdstjórninni aðfaranótt 25. febrúar á síðasta ári. Játaði maðurinn brot sín skýlaust og afþakkaði skipaðan verjanda. Var honum enn fremur gert að greiða rúmar 20 þúsund krónur í málskostnað.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að maðurinn hafi við handtöku fyrir utan skemmtistað við Kirkjuveg í Vestmannaeyjum bitið lögreglumann í handarbak hægri handar með þeim afleiðingum að hann hlaut bitfar og enn fremur fyrir að hafa, þegar á lögreglustöð var komið, hótað því að beita lögreglukonu kynferðislegu ofbeldi og því að hún yrði hvergi óhult. Þá hafi maðurinn hótað báðum lögregluþjónunum lífláti.

Enn fremur segir í dómnum að maðurinn hafi tvívegis áður sætt refsingu. Þannig hafi honum verið gerð sekt vegna þjófnaðar í júní 2016 og gert að sæta fangelsi í 90 daga vegna líkamsárásar, hótana, umferðarlagabrota og vopnalagabrota í júlí á síðasta ári. Síðarnefnda refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára og var manninum dæmdur hegningarauki þar sem brotið sem dæmt var fyrir fyrir helgi var framið fyrir brotið síðasta sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert