Laun borgarfulltrúa hækkuð

Borgarstjórn Reykjavíkur að störfum.
Borgarstjórn Reykjavíkur að störfum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mánaðarlaun borgarfulltrúa í Reykjavík og greiðsla vegna starfskostnaðar hækkaði 1. janúar í samræmi við launavísitölu. Launin uppfærast á hverju ári í janúar og júlí miðað vísitölu launa að því er segir í bréfi skrifstofu borgarstjórnar til forsætisnefndar Reykjavíkurborgar sem lagt var fram á fundi nefndarinnar 11. janúar.

Fram kemur í bréfi skrifstofu borgarstjórnar að grunnlaun borgarfulltrúa séu eftir breytinguna 742.357 krónur en voru áður 726.748. Hækkunin nemur því 15.609 krónum eða 2,14%. Greiðsla vegna starfskostnaðar er nú 53.613 krónur en var áður 52.486. Hækkunin nemur 1.127 krónum eða að sama skapi 2,14%.

Enn fremur segir í bréfinu að í grunnlaununum felist „að fullu greiðslur fyrir setu í nefndum og ráðum borgarinnar, þ.m.t. formennsku í öðrum nefndum en fastanefndum, innkomur sem varamenn og setur sem áheyrnarfulltrúar.“

mbl.is