Tíu milljarða kröfur á Íslandi

Kröfur í þrotabú Primera Air á Íslandi nema tíu milljörðum …
Kröfur í þrotabú Primera Air á Íslandi nema tíu milljörðum króna. Ljósmynd/Aðsend

Tugir kröfuhafa lýstu alls tíu milljarða króna kröfum í þrotabú Primera Air á Íslandi, sem varð gjaldþrota í október síðastliðnum, en frestur til þess að lýsa kröfum í búið er útrunninn. RÚV greinir frá þessu.

Í frétt Ríkisútvarpsins er haft eftir Eiríki Elísi Þorlákssyni, skiptastjóra búsins, að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um riftunarmál, en að það sé til skoðunar. Arion banki er á meðal kröfuhafa, en Eiríkur getur ekki gefið upp hversu háar einstakar kröfur í búið eru.

Arion banki sagði í afkomuviðvörun eftir gjaldþrot Primera Air að „vegna ófyrirséðra atburða“ gerði bankinn ráð fyrir því að niðurfæra lán og greiða út ábyrgðir, sem myndi kosta bankann á bilinu 1,3-1,8 milljarða króna.

Í október var greint frá því að kröfur á hendur Primera Air í Danmörku næmu yfir 16 milljörðum íslenskra króna og að kröfuhafar í þrotabú danska hluta flugrekstrarins væru yfir 500 talsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina