Vill 13 milljónir í bætur vegna uppsagnar

Atli Rafn átti að taka þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á …
Atli Rafn átti að taka þátt í uppfærslu Borgarleikhússins á Medeu leikárið 2017-18, en var rekinn nokkrum dögum fyrir frumsýningu vegna ásakana um kynferðislega áreitni. mbl.is/Eggert

Leikarinn Atli Rafn Sigurðarson hefur stefnt Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur leikhússtjóra vegna uppsagnar hans í desember árið 2017. Fer hann jafnframt fram á 10 milljóna króna skaðabætur og 3 milljónir í miskabætur. Málið verður þingfest á morgun í héraðsdómi.

Atli Rafn var rekinn frá leikfélaginu nokkrum dögum fyrir frumsýningu leiksýningarinnar Medeu, þar sem hann átti að fara með eitt aðalhlutverkið, eftir að ásakanir um kynferðislega áreitni voru settar fram gegn honum. Kom málið upp í kjölfar vitundarvakningar í kringum #metoo.

Atli sagði í tilkynningu eftir að sagt var frá uppsögninni að honum hafi ekki verið greint frá því hvers eðlis ásakanirnar séu, frá hvaða tíma, hverjir eigi í hlut né nokkru öðru. Í kæru málsins, sem Vísir hefur undir höndum og greinir frá í dag, segir að hann hafi ekki fengið upplýsingar sem mögulega gætu varpað ljósi á ásakanirnar og sett þær í samhengi.

Atli Rafn Sigurðsson.
Atli Rafn Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þá er getið þess að Atli Rafn hafi ekki fengið eitt einasta verkefni á leiklistarsviðinu, ef frá er talin fastráðning hans hjá Þjóðleikhúsinu. Hann sneri aftur þangað eftir uppsögnina hjá Borgarleikhúsinu og er starfandi hjá leikhúsinu í dag. Hafi hann meðal annars misst starf við lestur auglýsinga fyrir Krónuna.

Í tilkynningu frá Leikfélagi Reykjavíkur vegna málsins segir að félagið vilji fara varlega í að tjá sig um einkamálefni fyrrverandi starfsmanns, en að það virði rétt hans til að setja málið í farveg dómstóla. Tekið hafi verið á málinu sem stjórnendur leikfélagsins töldu og telja enn hafa verið það eina rétta í stöðunni. Verður sú afstaða meðal annars rökstudd í greinargerð og fyrir dómi.

Þá er tekið fram að málið hafi farið fyrir Persónuvernd og þar komi fram að vinnsla leikfélagsins á persónuupplýsingum um stefnanda hafi samrýmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og að leikfélagið hafi veitt stefnanda fullnægjandi upplýsingar.

Einar Þór Sverrisson, lögmaður Atla Rafns, og Kristín leikhússtjóri staðfestu við mbl.is að málið væri þingfest á morgun og staðfesti Einar að farið væri fram á 13 milljónir í bætur í málinu. Að öðru leyti vildu þau ekki tjá sig um málið, en Kristín vísaði í yfirlýsingu leikfélagsins.

Yfirlýsingin er í heild hér að neðan:

Vegna fyrirspurnar um málefni fyrrum starfsmanns Leikfélags Reykjavíkur:

Leikfélag Reykjavíkur vill fara varlega í að tjá sig um einkamálefni fyrrverandi starfsmanns en virðir að sjálfsögðu rétt hans, líkt og annarra í hans stöðu, til að setja mál sín í þennan farveg. Tekið var á málinu á þann hátt sem stjórnendur Leikfélags Reykjavíkur töldu, og telja enn hafa verið, það eina rétta í stöðunni. Mun lögmaður félagsins rökstyðja þá afstöðu í greinargerð og fyrir dómi.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að vinnsla LR á persónuupplýsingum um stefnanda hafi samrýmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og að LR hafi veitt stefnanda fullnægjandi upplýsingar.

Virðingarfyllst,
Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert