Breyttu framlagðri tillögu sinni

Kolbrún Baldursdóttir og Vigdís Hauksdóttir vilja fela borgarlögmanni að vísa …
Kolbrún Baldursdóttir og Vigdís Hauksdóttir vilja fela borgarlögmanni að vísa skýrslunni um Nauthólsveg 100 til „þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar“. mbl.is/Eggert

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, lögðu við upphaf borgarstjórnarfundar fram breytingartillögu við framlagða tillögu sína til borgarstjórnar um að vísa skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 til héraðssaksóknara.

Breytingartillagan er á þann veg að embætti borgarlögmanns verði falið að vísa skýrslunni til „þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar“ og að sama embætti verði einnig falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum vegna þessa sama máls áfram, þegar þær liggja fyrir.

Borgarfulltrúarnir Vigdís og Kolbrún stigu báðar í ræðustól í umræðum um skýrslu innri endurskoðunar og sögðu að með þessum breytingum væri verið að „víkka út“ tillöguna og segir Vigdís hana „ganga lengra“ en sú tillaga sem þær lögðu fram á fundi forsætisnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina