Dagur segir Eyþór hafa hlaupið á sig

Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds, í myndatöku fyrir sveitarstjórnarkosningarnar …
Dagur B. Eggertsson og Eyþór Arnalds, í myndatöku fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á síðasta ári. Þeir tókust á í kosningabaráttunni og hafa haldið því áfram síðan. mbl.is/Arnþór

„Maður ræður ekki alltaf hvað gerist, heldur fyrst og fremst hvernig brugðist er við. Í þessu máli hefur verið rétt brugðist við. Þegar framúrkeyrslan kom í ljós var kallað eftir skýringum og síðan málið sett í réttan farveg hjá innri endurskoðun. Nú þegar þessi ítarlega og vandaða skýrsla með þessum fjölmörgu ábendingum liggur fyrir, þá er það okkar skylda og verkefni að vinna úr þær úrbætur sem nauðsynlegar eru,“ sagði Dagur B. Eggertsson í ræðu sinni við upphaf umræðna um skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100, á borgarstjórnarfundi í dag.

Hann sagði meirihluta borgarstjórnar vera staðráðinn í að láta hendur standa fram úr ermum við það verkefni, og að hann ætlaði ekki að gera umræðu kjörinna fulltrúa um málið að miklu umtalsefni sínu, en gerði það svo raunar sjálfur og gagnrýndi þá borgarfulltrúa, sem talað hafa fyrir því að skýrslunni um Nauthólsveg 100 verði vísað til héraðssóknara, harðlega.

„Ég held að það nægi kannski að vísa til þess hvernig Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi Miðflokksins magalendir nú makalausum málflutningi sínum algjörlega úti í skurði í þessu máli,“ sagði Dagur og vísað til þeirrar ákvörðunar Vigdísar og Kolbrúnar Baldursdóttur oddvita Flokks fólksins að breyta framlagðri tillögu sinni um að vísa skýrslunni til héraðssaksóknara.

„Það er búið að draga tillöguna sem kynnt var með lúðrablæstri, já allir fjölmiðlar landsins voru boðaðir til fundar af hálfu borgarfulltrúans og borgarfulltrúa Flokks fólksins eftir síðasta borgarráðsfund, og gert í þeim það sem núna virðist vera bjölluat. Þeim var kynnt þessi tillaga, sem núna hefur verið dregin til baka,“ sagði Dagur og sagðist því raunar feginn, „út frá virðingu borgarstjórnar“.

Enn á ný er rætt um fasteignirnar við Nauthólsveg 100 …
Enn á ný er rætt um fasteignirnar við Nauthólsveg 100 í borgarstjórn. mbl.is/Hari

Það er þó ekki sá skilningur sem borgarfulltrúarnir leggja í breytingartillögu sína, sem felst í því að borgarlögmanni verði falið að vísa málinu til „þar til bærra yfirvalda,“ í stað þess að ákvörðun verði tekin um það af hálfu borgarstjórnar að vísa skýrslunni til héraðssaksóknara. 

Þær Vigdís og Kolbrún segja að með breytingartillögu sinni sé verið að „víkka út tillöguna“ og Vigdís sagði að hún skildi vel að „borgarstjóri væri pirraður yfir því“.

Dagur sagðist þó ekki betur geta séð en að „einn maður sé skilinn eftir úti í skurðinum“ og væri þar enn á meðan þær Vigdís og Kolbrún reyndu „að krafla sig upp úr honum“. Það væri Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokks, sem var að sögn Dags „fljótur að hlaupa til, kikna í hnjánum eins og svo oft þegar borgarfulltrúi Vigdís Hauksdóttir opnar munninn, og taka undir tillöguna, augljóslega vanhugsað og án þess að hafa ráðfært sig við nokkurn sem hefur inngrip í lögfræði eða það hvernig svona mál eru unnin.“

„Það var ekki betur að heyra á oddvitanum en að það væri bara tekið undir þetta, að það væri fullkomlega eðlilegt á grundvelli skýrslunnar að borgarstjórn væri réttur vettvangur til þess að úrskurða um hugsanlegt sakhæfi og senda mál til héraðssaksóknara. Öðruvísi mér áður brá,“ sagði Dagur og lét í framhaldinu að því liggja að borgarstjórnarflokkurinn væri ekki stjórntækur.

Dagur B. Eggertsson í ræðustól í borgarstjórn Reykjavíkur í byrjun …
Dagur B. Eggertsson í ræðustól í borgarstjórn Reykjavíkur í byrjun desember. mbl.is/Hari

„Nú hef ég reyndar aldrei verið kjósandi Sjálfstæðisflokksins, en á mjög löngum köflum þá hefur hann engu að síður verið stjórntækur stjórnmálaflokkur í Reykjavík. Farið sér aðeins hægt, en af ákveðinni ábyrgð og festu, en ekki látið leiða sig út í alls kyns ógöngur í upphlaupum og umræðu, sem er því miður allt of oft að gerast. Ég vona að Sjálfstæðisflokkurinn og aðrir láti sér þetta líka að kenningu verða í þessu máli, nema það sé bara þannig að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins sé genginn í Vigdísi Hauksdóttur,“ sagði Dagur.

Borgarstjóra skorti auðmýkt

Eyþór Arnalds sagðist hafa orðið fyrir „vonbrigðum“ með ræðu borgarstjóra við upphaf umræðunnar. „Ég átti von á málefnalegri umræðu hér um þessa kolsvörtu skýrslu sem við höfum öll fengið, en í staðinn sjáum við að borgarstjóri sem hér var frummælandi æsir sig upp og sýnir algjöran skort á auðmýkt gagnvart verkefninu.

Hann sýnir enga auðmýkt gagnvart því sem aflaga fór, enga auðmýkt gagnvart framúrkeyrslu, enga auðmýkt gagnvart ólöglegum greiðslum, enga auðmýkt sem framkvæmdastjóri þegar reglur um útboð borgarinnar sjálfrar voru brotnar, enga auðmýkt gagnvart því að engir samningar voru gerðir utan þess eina sem hann gerði sjálfur. Auðmýkt borgarstjóra gagnvart brotum á sveitarstjórnarlögum var ekki að finna.

Ekki gagnvart því að skjöl finnast ekki, ekki gagnvart því að tölvupóstum var eytt og ekki var hægt að fullrannsaka málið, ekki gagnvart því að lög um skjalavörslu voru brotin, sem hafa hörð viðurlög. Ég sakna auðmýktar borgarstjóra gagnvart hörmulegri meðferð opinberra fjármuna. Útsvarsgreiðslum meira en 100 íbúa hefur verið sólundað með ólögmætum hætti án heimildar borgarinnar. Hvar er auðmýktin gagnvart þessu?“ sagði Eyþór.

Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir borgarstjóra skorta auðmýkt.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir borgarstjóra skorta auðmýkt. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við gerum kröfur á það að fólk sem sýslar með opinbert fé eins og virðisaukaskatt og staðgreiðslu og annað, að það skili þeim peningum og sólundi þeim ekki í annað. En við sjáum það að það hefur viðhafst hér, ekki bara í þessu máli heldur fleirum, að fé hefur ekki bara verið sólundað og framúrkeyrslur verið stundaðar, heldur hefur það verið gert með ólöglegum hætti. Eigum við síðan að fara hérna upp og gagnrýna þá sem vilja skoða málið. Er það góður siður, að skjóta sendiboða, eða þá sem vilja ekki geyma skýrslurnar undir stól,“ sagði Eyþór og nefndi að „margar skýrslur“ borgarinnar hefðu fengið að rykfalla.

Til dæmis segir Eyþór að nýleg „svört“ skýrsla um skjalastjórn og skjalavörslu hefði ekki enn verið kynnt fyrir borgarráði, „af einhverjum undarlegum ástæðum“ og að ekki hefði verið brugðist nægilega við skýrslu innri endurskoðunar um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, sem hafði umsjón með framkvæmdum við Nauthólsveg 100.

„Ef að borgarstjóri hefði tryggt það að farið hefði verið eftir þessari skýrslu hefði braggamálið ekki klúðrast. Þá hefðu ferlarnir verið í lagi,“ sagði Eyþór.

mbl.is

Bloggað um fréttina