Einhentur þúsundþjalasmiður í Eyjum

Örn Hilmisson lætur fátt ef nokkuð aftra sér.
Örn Hilmisson lætur fátt ef nokkuð aftra sér.

Örn Hilmisson missti vinstri handlegg við axlarlið í slysi á sjó fyrir 20 árum. Hann lætur það ekki trufla daglegt líf.

„Ég var sjómaður um borð í Danska Pétri VE, þegar ég lenti í slysi við Eldey fyrir rúmum 20 árum. Mín fyrsta hugsun var að finna hjálminn sem ég missti af mér. Ég fann ekki fyrir neinu en sá að handleggurinn var komin í gegnum blökk. Adrenalínið fór á fullt, ég vildi losna sem fyrst úr klemmunni en á sama tíma sá ég lífshlaup mitt á örskots stundu,“ segir Örn Hilmisson sem nú er starfsmaður Sæheima í Vestmannaeyjum.

„Ég gerði mér grein fyrir því að ástandið væri alvarlegt og var með fulla meðvitund alveg þangað til ég fór í aðgerð á Landspítalanum. Ég bað lækninn sem tók á móti mér að gera allt til þess að ég héldi handleggnum en ég vissi samt einhvern veginn að það yrði ekki. Þegar ég vaknaði eftir aðgerðina og sá að handleggurinn var farinn tók ég þá ákvörðun að láta það ekki brjóta mig niður og við það hef ég staðið. Ég hélt axlarliðnum sem gerir mér kleift með aðstoð stoðtækja að gera ýmislegt þrátt fyrir einn handlegg.“ Örn telur að vegna góðra gena, uppeldis og húmors hafi hann náð að lifa góðu lífi þrátt fyrir missi handleggsins. Öllu máli hafi skipt stuðningur fjölskyldunnar og nefnir hann sérstaklega eiginkonuna Anniku og börn þeirra tvö.

Þrátt fyrir að handleggur Arnar sé farinn finnur hann fyrir því sem kallað er draugaverkir.

„Ég finn mest fyrir draugaverkjum í handleggnum ef ég fæ hita eða ef lægðir eru á leiðinni. Oftast fæ ég eins og raflost eða finnst úlnliðurinn vera að brotna, handleggurinn að brenna eða neglurnar að brettast upp,“ segir Örn og bætir við hlæjandi að hann hafi fyrst reynt að nýta sér draugahandlegginn á mikilvægum leik KR og ÍBV ellefu dögum eftir slysið.

„Þegar Gummi Ben var að taka víti lét ég draugahandlegginn grípa í rassinn á honum þannig að hann skaut upp á svalir í næstu blokk í stað þess að hitta markið og ÍBV vann tvöfaldan titil,“ segir Örn sem á gott með að sjá spaugilegar hliðar tilverunnar. Hann segir ýmis fyndin atvik hafa komið upp eftir slysið.

„Á þessum leik KR og ÍBV kom frændi minn til mín og eldri bróður míns og byrjaði að ræða við okkur um hversu miður sín hann væri vegna slyssins hjá Erni,“ segir Örn og hlær. Hann segir að frændinn hafi ekki reiknað með því að hann yrði mættur á leik svo fljótt, en frændinn hélt sig vera að tala við Óðin sem er eineggja tvíburabróðir Arnar.

Örn segir þeim oft ruglað saman. Þeir eigi margar góðar sögur af fólki sem skilur ekkert í því þegar það sér Örn ýmist með eina eða tvær hendur. Hann segir Óðin ekki leiðrétta misskilninginn og hafa gaman af.

Örn segist hafa þurft að endurskipuleggja allt frá grunni með einn handlegg. Breytingin á jafnvægi líkamans hafi verði erfiðust. „Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir röskuninni sem verður á jafnvægi við útlimamissi,“ segir Örn og segist nú þurfa að gæta sín betur í fjallaklifri og í allri hæð. Miklu máli skipti að vera í góðu líkamlegu formi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »