„Erum að ýta á að fá svör“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir kominn tíma til að …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir kominn tíma til að hreyfa við kjaraviðræðunum. mbl.is/Eggert

 „Það er bara visst mikil þolinmæði sem við höfum fyrir því að vera að mæta á endalausa fundi þar sem ekkert kemur fram um hversu mikið okkar viðsemjendur eru tilbúnir að mæta okkur með af þeirri kröfugerð sem við lögðum fram á sínum tíma,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR í samtali við mbl.is.

Fréttablaðið hafði eftir Ragnari Þór í morgun að til greina komi að stéttarfélögin fjögur, sem vísað hafa deilu sinni til ríkissáttasemjara, slíti viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) náist enginn árangur á sáttafundinum á morgun.

Fundurinn á morgun verður þriðji fundur félaganna og SA frá því að málinu var vísað til sáttasemjara. „Við erum erum að ýta á að fá svör og erum einfaldlega að segja að það er kominn tími á að við förum að heyra eitthvað og fá efnisleg viðbrögð við okkar kröfugerð,“ segir Ragnar Þór. „Það er kominn tími á að fara að hreyfa við þessum málum hvernig sem það verður gert.“

Man ekki eftir að hafa áður verið í þessari stöðu

Segir hann félögin verða að fá einhver svör sem þau geti farið með í bakland sitt til að upplýsa þau um hver staðan raunverulega sé. „Ég byrjaði í þessu 2009 og ég man ekki eftir að við höfum verið í þessari stöðu áður, þar sem við höfum ekki fengið afstöðu okkar viðsemjenda til okkar kröfugerðar.“

Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins, sagði í sam­tali við mbl.is í gær að það væri sín skoðun að ágæt­is­gang­ur væri í kjaraviðræðum og í morgun sagði Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, að kjaraviðræður stefni í rétta átt. „Það eru ekki stór skref, en þau eru í rétta átt, sem er gott,“ sagði Flosi.

Spurður út í þessi svör kveðst Ragnar Þór vera þeirrar skoðunar að þarna sé um að ræða mismunandi túlkun á hve hratt gangi. „Það kom til að mynda fram í máli Halldórs eftir áramót að það væri hörkugangur í viðræðum þó að enginn fundur hefði átt sér stað, að því er ég vissi, milli SA og Starfsgreinasambandsfélaganna sem eftir eru.“

Hafna endurskipulagningu og millihellingum

Þá megi ekki gleyma því að félögin fjögur sem vísað hafa kjaradeilu sinni til sáttasemjara fari með mikinn meirihluta atkvæða í ASÍ. „Þau félög sem eru nú í viðræðum eru smærri félög og þær viðræður sem eiga sér stað við þessi félög eru millihellingar og endurskiplagning á vinnutíma sem við höfum algjörlega hafnað. Við ætlum ekki að selja réttindi okkar félagsmanna í skiptum fyrir kauphækkanir, eða borga fyrir þær úr eigin vasa.“

Kveðst Ragnar Þór raunar vera hugsi fyrir hönd félagsmanna þessara félaga yfir að halda eigi áfram á þeirri vegferð að selja frá þeim réttindi.

Allsherjarverkföll ekki leiðin

Komi ekkert upp úr viðræðunum hjá sáttasemjara á morgun munu félögin fjögur ræða við sína félagsmenn, sem taka á endanum ákvörðun um hver næstu skref verða. „Þetta eru ekki ákvarðanir sem við tökum sem formenn, heldur eru þetta ákvarðanir sem við tökum með samninganefndinni og okkar baklandi,“ segir Ragnar Þór.

Formenn félaganna fjögurra eru að hans sögn þó sammála um að allsherjarverkföll séu ekki leiðin til að ná saman. „Það eru til fleiri leiðir til að þrýsta á að kröfum okkar verði mætt,“ segir Ragnar Þór en vill þó ekki nefna á þessu stigi hvaða leiðir það gætu verið. „Það eru til fleiri leiðir en átök og allsherjarverkföll sem ég held að allir séu sammála um að séu ekki leiðin.“

mbl.is