Gagnagrunnur um þróun kaupmáttar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

Ríkisstjórnin hefur látið útbúa fyrir sig stóran gagnagrunn með öllum skattframtölum Íslendinga síðustu 25 árin til að sjá hvernig kaupmáttur hefur verið að breytast frá einu ári til annars. Vonast er til að þessi rannsókn verði gerð opinber á næstunni.

Þetta kom fram í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á hinum árlega Skattadegi Deloitte sem er haldinn í samstarfi Viðskiptaráðs Íslands og Samtaka atvinnulífsins.

Bjarni benti á skýrslu sem ASÍ birti haustið 2017 um þróun skattbyrði Íslands í tekjuskattskerfinu og talaði um að hún hafi aðeins dregið upp eitt sjónarhorn á stöðu mála. Skoða þyrfti betur hvernig fólk hefði það og nefndi hann að fleiri en áður taki þátt í skattkerfinu. Þróun kaupmáttar hérlendis sé að færast í átt að því sem gerist á hinum Norðurlöndunum.  Talaði hann um að ríkisstjórnin hefði því ákveðið að setja af stað „gríðarlega mikla rannsókn“ til að kanna þessa þróun kaupmáttar betur.

Frá Skattadeginum sem hófst í Hörpu í morgun.
Frá Skattadeginum sem hófst í Hörpu í morgun. mbl.is/Freyr

Hann kvaðst vona að með rannsókninni væri hægt að dýpka umræðuna um stöðu kaupmáttar hérlendis og fyrir vikið hafi stjórnvöld „betri stað til að standa á í umræðunni“ vegna stöðunnar í dag og þeirra breytinga sem hafa orðið. Hann sagði mikilvægt að geta sett fram rauntölur þess efnis. „Það er allt of algengt að menn slái fram í umræðunni að það sé tilfinning fólks að eitthvað sé að gerast,“ sagði Bjarni og bætti við að með þessum gögnum sjáist staðreyndirnar svart á hvítu, hvernig kaupmáttur tekna hefur þróast.

Bjarni sagði að þau gögn sem stjórnvöld hafi í höndunum í dag sýni að svigrúm hafi verið að myndast á undanförnum árum sem hafi skilað sér í góðri lífskjarasókn.

Einnig nefndi hann að ríkisstjórnin sé að útfæra hugmyndir til breytinga á tekjuskattskerfinu og að von sé á skýrslu um það á næstunni. Þar verður gerð grein fyrir þeirri breytingu sem hefur átt sér stað um tíma og samanburður gerður við hin Norðurlöndin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert