Hjúkrunarfræðingar bíða óþreyjufullir

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Ljósmynd/Aðsend

Hjúkrunarfræðingar bíða óþreyjufullir eftir því að losna undan gerðardómi í lok mars, að sögn Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Vinna stendur yfir við nýja kröfugerð og hyggur félagið á ferðalag um landið til að heyra hljóðið í hjúkrunarfræðingum.

Mikill hugur er í þeim miðað við niðurstöðu skoðanakönnunar á meðal hjúkrunarfræðinga, sem 75% svöruðu. „Þeir eru mjög bjartsýnir á að það gerist eitthvað núna,“ segir Guðbjörg.

Um fjögur þúsund hjúkrunarfræðingar eru í félaginu, þar af rúmlega þrjú þúsund starfandi. Áætlað er að á fjórða hundrað hjúkrunarfræðinga sem starfa við annað geti snúið aftur starfa.

Guðbjörg segir margt undir í komandi samningum en tæp fjögur ár eru liðin síðan kjaradeila hjúkrunarfræðinga fór fyrir gerðardóm. Hún segist vita af mörgum hjúkrunarfræðingum sem ætla að bíða og sjá hvað kemur út úr samningunum áður en þeir ákveða hvort þeir ætla að starfa við fagið.

Viðræðuáætlun við ríkið er í undirbúningi og mun hún hefjast á vordögum. „Ég er bjartsýn núna. Í ljósi þess hvernig komið er fyrir heilbrigðiskerfinu í dag tel ég yfirvöld vera í lykilstöðu til að leysa betur úr þeim vandamálum, meðal annars með því að halda hjúkrunarfræðingum í starfi,“ segir Guðbjörg og vonast einnig til að fá þá til baka sem hafa farið í önnur störf.

Hún segir þrennt þurfa að laga í starfi hjúkrunarfræðinga, eða álag í starfi, óviðunandi vinnuumhverfi og óásættanleg laun. Meðal annars þurfi að stytta vinnuvikuna og bæta mönnun en nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur fær um 400 þúsund krónur í grunnlaun.

Hundrað ára afmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnað í dag. Svandís …
Hundrað ára afmæli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnað í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fagna 100 ára afmæli félagsins

Dagskrá opnunarhátíðar vegna 100 ára afmælis Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hófst á Hótel Hilton Nordica klukkan 16.30 í dag. Ásamt skemmti- og tónlistaratriðum fluttu Guðbjörg, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir ávörp. Að sögn Guðbjargar höfðu um 800 til 900 hjúkrunarfræðingar skráð sig á viðburðinn.

Félagið var stofnað 18. nóvember 1919. Helsta markmið þeirra sex hjúkrunarkvenna sem stofnuðu það var að stuðla að menntun hjúkrunarkvenna á Íslandi. „Menntun hefur verið eins og rauður þráður í gegnum 100 ára söguna,“ segir hún.

Á meðal fleiri viðburða á árinu verður stór messa í Hallgrímskirkju í maí og sögusýning í samvinnu við Árbæjarsafn sem verður opnuð af forseta Íslands 19. júní. Þann dag árið 1933 var starf hjúkrunarkvenna á Íslandi lögverndað. Ráðstefna verður einnig haldin á Akureyri í september og hátíðarhöldunum lýkur svo með afmælishátíð í nóvember.

Alma Möller landlæknir, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásta Möller, hjúkrunarfræðingur …
Alma Möller landlæknir, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásta Möller, hjúkrunarfræðingur og fyrrverandi alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is