Miðflokksmenn hafa ekki boðað komu sína

Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar …
Guðlaugur Þór Þórðarson, Bjarni Benediktsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Gunnar Bragi Sveinsson eru allir boðaðir á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Tveir síðastnefndu hafa ekki boðað komu sína á fundinn. Samsett mynd

Hvorki Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, né Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hafa boðað komu sína á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á morgun, eins og nefndin hefur beðið um. Þetta staðfestir Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við mbl.is.

Á fundinum verður til umræðu skipun Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar í embætti sendiherra í ljósi ummæla sem Gunnar Bragi lét falla um högun skipunarinnar á barnum Klaustri í nóvember.

„Við erum bara að sinna eftirlitsskyldu okkar,“ segir Helga Vala, sem jafnframt segist ekki hafa sérstakar væntingar til fundarins. Tilgang fundarins segir hún vera að komast að því hvað hafi farið fram og hvort einhverjir eftirmálar kunna að vera.

Einnig hafa Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, verið boðaðir á umræddan fund. Þeir hafa báðir staðfest komu sína.

Gunnar Bragi, sem var utanríkisráðherra þegar umræddir einstaklingar voru skipaðir í embætti sendiherra, sagði á Klaustri að Geir hafi verið skipaður gegn því að Gunnar Bragi ætti inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum. Bjarni hefur sagt fullyrðingu Gunnars Braga „tóma þvælu“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert