„Ótrúlega djarfar hugmyndir“ komið fram

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/​Hari

„Það eru ekki nýir tímar í skattaumræðunni nema hvað að komið hafa fram ótrúlega djarfar hugmyndir um breytingar á skattkerfinu sem ég tel að gangi alls ekki upp,“ sagði Bjarni Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra í ávarpinu sínu á hinum árlega Skattadegi Deloitte.

Bjarni talaði um að ýmsar hugmyndir hafi komið fram í skattaumræðunni sem ekki séu allar jafn raunhæfar. Nefndi hann meðal annars hugmyndir um skattleysi lægstu launa. Fram kom í svari hans í fyrra við fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar, þingsmanns Flokks fólksins, að það myndi kosta 149 milljarða króna ef lægstu laun yrðu gerð skattlaus. „Ef ekkert annað kæmi til gætum við verið að sjá á eftir um 80% af tekjuskattsgreiðslum einstaklinga til ríkisins og einum sjötta af heildartekjum ríkissjóðs. Þetta er langt fyrir utan það sem eðlilegt svigrúm er til fyrir þær aðstæður sem eru uppi núna,“ sagði Bjarni.

Sjálfur myndi hann vilja sjá meira svigrúm til að lækka skatta en kemur fram í núgildandi fjármálaáætlun. „En það tæki bróðurpartinn af tekjuskattskerfinu til að fjármagna skattleysi lágmarkslauna.“

Bjarni sagði það koma sér á óvart að menn vilji ekki færa niður skattleysismörkin til að létta skattbyrði lægstu launahópanna eins og gert hafi verið á hinum Norðurlöndunum. „Það er ofsalega erfitt að fara fram á mjög háan persónuafslátt með mjög háu frítekjumarki og lága skattbyrði eftir það. Það í raun og veru gengur ekki upp.“

Bjarni Benediktsson á Skattadeginum.
Bjarni Benediktsson á Skattadeginum. mbl.is/Freyr

Ráðherrann ræddi um að tekjuskattskerfið og tryggingagjaldið hafi verið sett í forgang hjá ríkisstjórninni og bætti við að hann vonaðist eftir því að samstaða myndist um að festa í sessi þau mörk gagnvart lægri tekjuhópunum sem hefur verið kallað eftir. Hann sagðist ánægður með að breytingar á tryggingagjaldinu hafi verið kláraðar með einu frumvarpi en það lækkaði um 0,25% um áramótin og gerir það aftur um næstu áramót. „Mér finnst umræðan um tryggingagjald oft vera dálítið úti á túni. Það er mikilvægt að það skyldi lækka núna og að það sé ákveðin festa gagnvart þróun þess.“

Bætti hann við að taka þurfi ákvörðun og festa í lög lækkun bankaskattsins „þannig að það sé fyrirsjáanleiki hvernig hann snertir“.

Bjarni sagði ríkisstjórnina ætla að standa við það sem hún hefur sagt, þ.e. að gera betur við lágtekju- og millitekjuhópa. Öllum hugmyndum því til viðbótar, sem felist í tugum milljarða og fyrir vikið „kollsteypum“ á tekjuskattskerfinu, muni hann áfram hafna.

mbl.is

Bloggað um fréttina