Sýknaður af ákæru vegna banaslyss

Slysið átti sér stað á Reykjanesbraut, nærri álverinu í Straumsvík, …
Slysið átti sér stað á Reykjanesbraut, nærri álverinu í Straumsvík, í febrúar 2017. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann af ákæru vegna banaslyss, sem átti sér stað á Reykjanesbraut í febrúar árið 2017, en dómur var kveðinn upp síðasta föstudag. Lögregla taldi manninn hafa ekið án nægilegrar tillitssemi og varúðar, of hratt miðað við aðstæður og verið ófær um að stjórna ökutækinu örugglega vegna veikinda.

Í ákæru sagði einnig að maðurinn hefði fengið aðsvif við aksturinn, ekið yfir á öfugan vegarhelming og sveigt svo aftur yfir á réttan vegarhelming, þar sem bílarnir tveir rákust saman, eftir að ökumaður hins ökutækisins hafði sveigt yfir á rangan helming til þess að forðast árekstur.

Kona sem var farþegi í þeim bíl lést við áreksturinn og ökumaðurinn, eiginmaður hennar, hlaut mörg rifbrot og áverka á kvið.

Slysið átti sér stað snemma morguns, vestan við álverið í Straumsvík, og var ákærði að koma aftur í borgina eftir að hafa skutlað sambýliskonu sinni og dóttur hennar í flug. Hann sagði fyrir dómi að hann minntist þess ekki að bifreið sín hefði farið yfir á öfugan vegarhelming, né heldur að hann hefði fengið aðsvif. Ákærði hefur glímt við gáttatif og verið undir læknishendi vegna þess, en aldrei fengið ráðleggingar læknis um að aka ekki bifreið af þeim sökum.

mbl.is/Ófeigur

Í skýrslutöku hjá lögreglu í júní 2017 sagði ákærði að hann myndi ekkert eftir atvikinu, „nema þegar bifreiðarnar skella saman“ og að hann hefði „dottið út eða misst meðvitund“ út af hjartatifi.

Eiginmaður konunnar sem lést í slysinu sagði fyrir dómi að hann hefði séð bifreið ákærða stefna út af veginum, sömu megin og hann ók. Hann kvaðst hafa gripið til þess ráðs að sleppa bensíngjöfinni og beygja frá bifreiðinni sem kom á móti, yfir á rangan vegarhelming. Hann hefði svo talið sig vera kominn fram hjá bifreiðinni þegar hann sá skyndilega ljós koma og bílarnir lent saman með miklum skelli. Hann taldi ákærða ekki hafa bremsað í aðdraganda árekstursins.

Tvö vitni að árekstrinum, sem óku saman á leið til vinnu fyrir aftan bifreið hjónanna, lýstu því sömuleiðis að ákærði hefði sveigt yfir á rangan vegarhelming í aðdraganda áreksturins og þótti héraðsdómaranum sannað, að það hefði verið meginorsök árekstursins.

Hins vegar þótti dómaranum ekki sannað, að ákærði hefði sýnt af sér refsivert gáleysi með því að setjast undir stýri þennan morgun, enda hafði hann ekki fengið leiðbeiningar frá lækni þar að lútandi.

mbl.is