Umsækjendur beri sjálfir ábyrgð

Einar Kárason þarf að snúa sér að öðru en skrifum …
Einar Kárason þarf að snúa sér að öðru en skrifum í ár. mbl.is/Kristinn

Stjórn Launasjóðs listamanna segir rafrænar umsóknir ekki taldar lögformlega marktækar fyrr en þær hafa verið sendar til sjóðsins með fullnægjandi hætti, að umsækjendur fái sjálfkrafa afrit af umsókn sinni eftir að hún hafi verið send inn og beri sjálfir ábyrgð á því að umsókn hafi skilað sér.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn Launasjóðs listamanna vegna umræðu í kjölfar úthlutunar úr sjóðnum, en umsókn rithöfundarins Einars Kárasonar barst úthlutunarnefnd sjóðsins ekki, þrátt fyrir að hann segist hafa fyllt út umsókn 24. september á síðasta ári.

Í tilkynningu frá stjórn sjóðsins segir að aðeins fullkláraðar og innsendar umsóknir séu teknar til meðferðar hjá úthlutunarnefnd, sem sé sambærilegt því sem farið sé eftir hjá öðrum sjóðum tengdum vísindum og listum í umsjá Rannís.

Stjórnin ítrekar fullt traust til úthlutunarnefnda Launasjóðs listamanna, en um meðferð umsókna segir í 6. grein reglugerðar um listamannalaun: „Við veitingu starfslauna og styrkja úr öllum sjóðum skulu úthlutunarnefndir gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt reistar á faglegum sjónarmiðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert