Viðbótarvaraforsetar fjalli um Klausturmál

Steingrímur, auk allra varaforseta þingsins, er óhæfur til að fjalla …
Steingrímur, auk allra varaforseta þingsins, er óhæfur til að fjalla um Klausturmálið. mbl.is/​Hari

Ákveðið hefur verið að kosnir verði inn viðbótavaraforsetar í forsætisnefnd Alþingis sem hafa það verkefni að fjalla um Klausturmálið og koma því í viðeigandi farveg. 

„Eftir umfjöllun forsætisnefndar í gær og fund formanna þingflokka í dag er yfirgnæfandi samstaða um það hvaða leið verði farin,“ segir Steingrímur J. Sigfússon í samtali við mbl.is.

„Þetta er hefðbundin leið þegar verið er að leysa úr hæfisvanda,“ segir Steingrímur, sem sjálfur, auk allra varaforseta þingsins, er vanhæfur til þess að fjalla um Klausturmálið.

„Viðbótarvaraforsetarnir verða kosnir úr röðum þeirra þingmanna sem ódeilanlega eru hæfir til umfjöllunar um málið og hafa hvorki tjáð sig um það í ræðu eða riti þannig að það orki tvímælis,“ segir Steingrímur.

„Þeim verður þá bætt við þannig að þeir myndi eins konar undirforsætisnefnd og verður þetta gert með afbrigðum frá þingsköpum. Þessi aðferð nýtur yfirgnæfandi stuðnings og verður því væntanlega fyrir valinu.“

Steingrímur gerir ráð fyrir því að viðbótarvaraforsetarnir verði kosnir fljótlega eftir að þing kemur saman í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert