Ástin, Fíasól og Þjáningarfrelsið best

Í efri röð frá vinstri: Guðrún Eva Mínervudóttir og Kristín …
Í efri röð frá vinstri: Guðrún Eva Mínervudóttir og Kristín Helga Gunnarsdóttir. Í neðri röð frá vinstri: Auður Jónsdóttir, Bára Huld Beck og Steinunn Stefánsdóttir. Samsett mynd

Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, voru afhent í 13. sinn við hátíðlega athöfn í Höfða fyrir stundu. Í flokki fagurbókmennta var valið best smásagnasafnið Ástin, Texas eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Fíasól gefst aldrei upp eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur var valin sú besta í flokki barna- og unglingabókmennta og Þjáningarfrelsið – óreiða hugsjóna og hagsmuna í heimi fjölmiðla eftir Auði Jónsdóttur, Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur var valin sú besta í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.


Hyggst beita öðrum brögðum

„Þessi verðlaun eru svo falleg og sérstök. Ekki síst fyrir það sem er yfirlýst markmið þeirra sem er að reyna að geta sér til um hvað verði eftir þegar flóðið er komið og farið,“ segir Guðrún Eva Mínervudóttir, en auk smásagnasafns hennar, Ástin, Texas, voru í flokki fagurbókmennta tilnefndar bækurnar Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttur og Kláði eftir Fríðu Ísberg. 

Í umsögn dómnefndar um Ástin, Texas segir að smásagnasafnið geymi fimm smásögur „sem láta ekki mikið yfir sér; þær eru lágstemmdar á yfirborðinu en undir niðri krauma miklar tilfinningar. Sögurnar hvefast allar um ástina og fjalla bæði um nánd og skortinn á henni. Þetta er fádæma vel gert; mannlýsingar eru trúverðugar og vekja samkennd með persónum og samskiptum þeirra er lýst af slíkri dýpt og næmi að þau láta lesandann vart ósnortinn.“


Spurð hvort Ástin, Texas sé besta bók hennar til þessa svarar Guðrún Eva því umsvifalaust játandi. „Ég segi bara eins og Sartre, mér er alveg sama hvað fólk segir um bækurnar mínar svo lengi sem það viðurkennir að hver bók sé skárri en sú næsta á undan. Maður vill vera að taka stöðugum framförum. Það þýðir líka að þær bestu hljóta að vera óskrifaðar, sem er mjög góð tilhugsun,“ segir Guðrún Eva og bætir við að hana langi til að skrifa fleiri smásagnasöfn.


Varpar ljósi á öll bókverk

„Mér þykir sérstaklega vænt um að vera verðlaunuð fyrir Fíusól,“ segir Kristín Helga Gunnarsdóttir sem verðlaunuð er fyrir sjöttu og síðustu bók sína um stelpuna uppátækjasömu. Þetta er í þriðja sinn sem Kristín Helga hlýtur Fjöruverðlaunin í flokki barna- og unglingabókmennta og annað árið í röð því í fyrra var hún verðlaunuð fyrir Vertu ósýnilegur, flóttasaga Ishmaels. Auk Fíasól gefst aldri upp voru tilnefndar bækurnar Lang-elstur í leynifélaginu eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og Sjúklega súr saga eftir Sif Sigmarsdóttur og Halldór Baldursson.

Í umsögn dómnefndar um vinningsbókina segir að umræðan um siðferðileg álitamál sé „sett fram af barnslegri einlægni en um leið alvöru sem dýpkar undirtón sögunnar. Persónur bókarinnar eru ekki byggðar upp af staðalímyndum heldur eru þær lifandi og margræðar rétt eins og heimur Fíusólar.“

„Ég hélt að Fíasól væri farin frá mér,“ segir Kristín Helga, en síðasta bókin um Fíusól kom út 2010. „En svo átti ég býsna margar sögur sem söfnuðust saman og hæfðu henni svo vel og ein sem kallaði á frekari úrvinnslu,“ segir Kristín Helga sem í verðlaunabók sinni lætur Fíusól leita til umboðsmanns barna. „Hún kemst að því að margir krakkar eru í flóknum og erfiðum aðstæðum og stofnar því björgunarsveit sem berst fyrir réttindum barna. Stóru málin sem mörg börn glíma við í dag eru þessar tvískiptu aðstæður þar sem börn búa til helminga á tveimur stöðum og jafnvel skipta lífinu sínu algjörlega í tvennt. Stundum gengur þetta út í öfgar og stundum dansar þetta ljúflega. Mér fannst áhugavert að skoða það með augum Fíusólar.“

Fiðrildaáhrif á samfélagið

„Við unnum þessa bók af hugsjón af því að okkur fannst þetta mikilvægt umfjöllunarefni. Þess vegna finnst mér mjög vænt um bæði þessi verðlaun og tilnefninguna til Íslensku bókmenntaverðlaunanna því það er staðfesting á því að samfélaginu finnist þetta málefni mikilvægt. Þessi verðlaun hjálpa bókinni vonandi að hafa fiðrildaáhrif á samfélagið,“ segir Auður Jónsdóttir sem er höfundur Þjáningarfrelsisins ásamt Báru Huld Beck og Steinunni Stefánsdóttur. Að auki voru í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis tilnefndar Aldarsaga háriðna á Íslandi eftir Báru Baldursdóttur og Þorgerði H. Þorvaldsdóttur og Skiptidagar – Nesti handa nýrri kynslóð eftir Guðrúnu Nordal.


Í umsögn dómefndar um Þjáningarfrelsið segir að bókin sé „mikilvægt og tímabært framlag til íslenskra bókmennta“ auk þess sem bókin sé liður í því að standa vörð um tjáningarfrelsið. „Í bókinni fáum við að kynnast heiminum að baki fréttaflutningum. Fjallað er um raunveruleg dæmi sem gefa innsýn í aðstæður sem blaðamenn geta átt við að etja í störfum sínum og áleitnar spurningar, hugmyndir og vangaveltur sem varða grunngildi fjölmiðlunar og stöðu fjölmiðla og tjáningarfrelsis á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar.“


Það er ekkert launungarmál að kveikjan að bókinni var meiðyrðamál sem höfðað var gegn Auði vegna pistils hennar sem birtist á vef Kjarnans. „Upphaflega ætlaði ég að skrifa esseyju-bók um það að vera stefnt fyrir orð sín, en eftir því sem ég heyrði fleiri reynslusögur annarra vatt efnið upp á sig og bókin breyttist í viðtalsbók,“ segir Auður. 

Ítarlegri viðtöl við verðlaunahafana má lesa í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is