Ber ekki ábyrgð á álagi fyrrverandi

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Fjárnám sem gert hafði verið í fasteign konu vegna álags á vantalda skatta fyrrverandi sambúðarmanns hennar var í dag fellt úr gildi af Hæstarétti. Taldi Hæstiréttur að þótt fólkið hafi verið samskattað á þeim tíma sem skattarnir voru vangreiddir nái álagið í formi refsikenndra viðurlaga ekki til konunnar. Þar sem ekki kom fram í endurákvörðun skattayfirvalda hver gjaldskuldin var áður en álag var lagt á felldi Hæstiréttur því fjárnámið úr gildi.

Fólkið var í sambúð frá árinu 1999 og var samskattað fram til ársins 2012. Samkvæmt lögum ber samskattað fólk sameiginlega ábyrgð á skattgreiðslum hvort annars og er þar með í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeim greiðslum.

Árið 2015 var fyrrverandi sambúðaraðila konunnar tilkynnt að eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra væri gerð breyting á opinberum gjöldum gjaldárin 2006 og 2007. Við rannsókn hafði komið í ljós að maðurinn hafi haft tekjur sem skipstjóri erlendis og ekki hafi verið haldið eftir staðgreiðslu vegna launagreiðslna sem hann fékk. Gerði hann heldur ekki grein fyrir tekjunum á skattframtali.

Endurákvarðaði ríkisskattstjóri því tekjur upp á 8,2 milljónir vegna starfa mannsins erlendis árið 2007 auk 25% álags á upphæðina. Breytingarnar höfðu þau áhrif að vaxtabætur sem konan hafði fengið féllu niður. Þá var skattaafsláttur til mannsins frá konunni felldur niður sem leiddi til gjaldahækkunar konunnar.

Maðurinn var boðaður í skýrslutöku vegna málsins án árangurs, en hann var þá búsettur erlendis og svaraði ekki tölvupósti sem var sendur á hann.

Ákvörðun ríkisskattstjóra var síðar felld úr gildi af yfirskattanefnd sem taldi að konunni hefði ekki verið gefið færi á að tjá sig um breytinguna sem sannarlega hafði áhrif á skattskil hennar, þrátt fyrir að um væri að ræða framtaldar tekjur mannsins.

Konunni var í byrjun árs 2017 birt greiðsluáskorun frá sýslumanni vegna skuldar mannsins á opinberum gjöldum og henni bent á að hún væri ábyrg fyrir skuldum mannsins ef skuldin yrði ekki greidd. Andmælti konan greiðsluáskoruninni en í maí þetta sama ár heimilaði héraðsdómur fjárnám hjá konunni vegna skuldarinnar. Framkvæmdi sýslumaður fjárnám í eignarhluta konunnar í fasteign, en í framhaldinu kærði konan fjárnámið til héraðsdóms.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að konan hafi ekki fengið að njóta andmælaréttar við fyrirhugaðar breytingar á opinberum gjöldum og hafi málsmeðferðin verið háð slíkum annmörkum að fella bæri fjárnámsgerðina úr gildi. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu hins vegar við í dómi sínum frá því júní í fyrra og sagði ekki rök fyrir því að fella beri fjárnámið úr gildi.

Sem fyrr segir sneri Hæstiréttur við dómi Landsréttar og var fjárnámið fellt úr gildi. Þá þarf sýslumaðurinn á Suðurnesjum, sem framkvæmdi fjárnámið, að greiða konunni 2 milljónir í málskostnað fyrir öllum dómstigum.

Í dómi Hæstaréttar er meðal annars vísað til stjórnarskrár Íslands og dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu um að löggjafanum hefði verið í lófa lagið að kveða á um með afdráttarlausum hætti ef ætlunin hafi verið að láta ábyrgð maka skattaðila einnig ná til afleiðinga af beitingu álags á vantalda skatta. Svo sé ekki í lögum og í dómi Hæstaréttar er ítarlega rakin saga skattalaga hér á landi og talið að þar skorti á að viðhlítandi heimildir séu til staðar þannig að konan verði látin bera fjárhagslegar afleiðingar þeirrar hlutlægu refsingar sem lögð var á fyrrverandi sambúðarmann hennar í formi álags á skattstofna.

Fimm dómarar Hæstaréttar kváðu upp dóminn, sem má í heild sinni lesa hér.

mbl.is