Eldur í dúfnakofa

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur sinnt tveimur brunaútköllum í morgun. Í öðru tilvikinu var tilkynnt um eld í dúfnakofa í Reykjavík en eldurinn reyndist minni háttar og varð dúfunum ekki meint af.

Í hinu tilvikinu kviknaði í vinnuvél á vinnusvæði en vélin, sem er beltagrafa, var frosin við jörðina og hafði verið reynt að koma henni af stað með því að hita upp með gaslampa. Ekki vildi betur til en að kviknaði í belti. Tveir dælubílar voru sendir á vettvang þar sem enginn brunahani var nálægt og þurfti að nota töluvert magn af froðu við að slökkva eldinn, að sögn varðstjóra í slökkviliðinu.

mbl.is