Erfitt á meðan úrræða er beðið

Ljóst er að ástandið verður erfitt á meðan beðið er …
Ljóst er að ástandið verður erfitt á meðan beðið er eftir úrlausnum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það er staðreynd að við munum ekki ráða við fyrirkomulagið til lengdar ætlum við að halda áfram að setja fjármuni í uppbyggingu á kerfinu eins og það er, þannig að áfram yrði svipað hlutfall aldraðra inni á hjúkrunarheimilum,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður Vinstri grænna og varaformaður velferðarnefndar Alþingis.

Velferðarnefnd ræddi hlutaúttekt embættis landlæknis á bráðamóttöku Landspítalans á fundi sínum í dag. Samkvæmt úttektinni tekst bráðamóttöku vel að sinna bráðahlutverki sínu. Vandinn liggur hins vegar í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn.

Á fundinn komu fulltrúar embættis landlæknis, Landspítalans og velferðarráðuneytis. „Það er ljóst að verið er að bregðast við vandanum,“ segir Ólafur Þór og nefnir meðal annars sjúkrahótel og hjúkrunarrými sem til stendur að taka í notkun fljótlega, auk byggingar nýs spítala.

Allir af vilja gerðir til þess að þreyja þorrann

„Það er ljóst að ástandið er erfitt á meðan beðið er eftir úrlausnum, en allir eru af vilja gerðir til þess að þreyja þorrann þangað til við sjáum fram úr þessu.“

Annað sem rætt var á fundinum, og Ólafur Þór segir jafnvel enn mikilvægara, er það hvernig hægt er að halda áfram að bregðast við þeim fyrirsjáanlegu breytingum sem verða á samfélaginu á næstu árum og áratugum.

„Aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast og þar með breytast þarfirnar. Við þurfum að setja meira fjármagn í úrræði eins og heimahjúkrun, heimaþjónustu, dagþjálfun og endurhæfingu, ekki einungis fyrir eldra fólk, heldur á öllum vígstöðum, til þess að bæta heilsu þjóðarinnar þannig að ekki verði eins mikil þörf á úrræðum fyrir þann stóra hóp sem er að komast á aldur,“ segir Ólafur Þór.

mbl.is