„Hef ekkert með skipun sendiherra að gera“

Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Bjarni Benediktsson á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég verð að halda því til haga að mér sýnist að aðdragandi þess að halda þennan opna fund sé ekki eins og reglurnar kveða á um en það truflar mig ekkert,“ sagði Bjarni Benediktsson við upphaf opins fundar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í dag.

Bjarni, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru boðaðir á fundinn þar sem rædd er skipun í sendiherrastöður vegna þess sem kom fram á Klausturupptökum. Gunnar Bragi og Sigmundur mættu ekki á fundinn.

Bjarni sagði að Gunnar Bragi hefði áður afturkallað allt sem kom fram í máli hans í upptökunum þar sem skilja mátti sem svo að hann ætti inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum vegna skipunar Geirs H. Haarde sem sendiherra í Washington.

Ég ítreka að ég átti enga aðkomu að þeirri ákvörðun sem hann tók um sendiherrastöðu í Washington og það lágu engin loforð frá mér um þá stöðu,“ sagði Bjarni. 

Spurður sagðist hann kannast við að hafa heyrt Gunnar Braga nefna að hann hefði áhuga á því að starfa í utanríkisþjónustunni í framtíðinni. „Þau mál voru ekki rædd við mig til að tryggja einhver loforð. Ég sat og sit sem fjármálaráðherra og hef ekkert með skipun sendiherra að gera,“ sagði Bjarni.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni vissi ekki hvers vegna Sigmundur Davíð heyrist staðfesta frásögn Gunnars Braga á upptökunum en sagði að það kynni að hafa komið fram af hans hálfu að Gunnar Bragi vildi starfa í utanríkisþjónustunni í framtíðinni. „Það kemur því ekki við að Gunnar Bragi hafi fengið loforð frá mér sem fjármálaráðherra.

Fundaði með Sigmundi út af áhuga Gunnars Braga

Bjarni staðfesti að hann hefði fundað með Sigmundi og Guðlaugi Þór síðasta haust þar sem Sigmundur kom á framfæri áhuga Gunnars Braga á því að starfa í utanríkisþjónustunni. Þar hafi hugmyndin verið að Sigmundur fengi að heyra frá utanríkisráðherra hver staðan væri.

Í þessum samtölum eru þessi mál aldrei rædd þannig að það sé verið að innheimta einhver loforð heldur fara yfir áhuga Gunnars Braga á því að starfa í utanríkisþjónustunni.

Bjarni var spurður að því hvort honum þætti eðlilegt að samtöl af þessu tagi færu fram. Bjarni sagði þessa spurningu ekki heyra undir sitt málasvið en hann grunaði að það væri algengt að utanríkisráðherrar fengju slíkar beiðnir. 

Ég hef reynslu af því og þetta er dæmi um að menn óski að því sé komið á framfæri við ráðherra. Síðan er nærtækt að skoða lista yfir sendiherra og þar er auðvelt að finna nokkra fyrrverandi alþingismenn. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að þeir séu margir, fyrrverandi stjórnmálamennirnir, mjög vel til þess fallnir að taka að sér þau verkefni sem felast í sendiherrastöðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert