Mega setja viðbótartryggingu vegna salmonellu

Íslensk stjórnvöld mega nú setja viðbótartryggingar á innflutning vegna salmonellu …
Íslensk stjórnvöld mega nú setja viðbótartryggingar á innflutning vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti. AFP

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) heimilaði í dag íslenskum stjórnvöldum að setja viðbótartryggingar á innflutning matvæla vegna salmonellu í kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

Með viðbótartryggingunni er þess krafist að tilteknum matvælum fylgi vottorð sem byggi á sérstökum salmonellurannsóknum á viðkomandi vöru áður en hún er flutt til landsins frá öðrum EES-ríkjum. 

„Þetta eru virkilega ánægjulegar fréttir. Umræða um mögulega umsókn Íslands um viðbótartryggingar hefur komið upp reglulega undanfarin ár en við settum mikinn kraft í þessa vinnu á fyrri hluta síðasta árs sem lauk síðan með formlegri umsókn síðasta sumar. Þetta er ein varðan á þeirri vegferð sem fram undan er [til] að tryggja enn betur öryggi matvæla og vernd búfjárstofna,“ segir í yfirlýsingu frá Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í fréttatilkynningu EFTA kemur fram að í þeim ríkjum þar sem tíðni salmonellu er mjög lág og í gildi er „fullnægjandi landsáætlun um varnir og viðbrögð við henni“ sé  gert ráð fyrir að ESA geti heimilað stjórnvöldum að setja slíkar viðbótartryggingar.

Í reglugerð sem sé hluti af EES-samningnum sé heimiluð viðbótartrygging af þessu tagi er kemur að innflutningi á tilteknum vörum til Finnlands, Svíþjóðar og Noregs. Geta íslensk stjórnvöld nú einnig nýtt sér reglurnar er kemur að innflutningi á kjúklingakjöti, hænueggjum og kalkúnakjöti.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is