Morgunblaðið langoftast skoðað á timarit.is

Mest sóttu titlarnir á timarit.is árið 2018.
Mest sóttu titlarnir á timarit.is árið 2018. mbl.is

Morgunblaðið er, eins og jafnan áður, langvinsælasti titillinn árið 2018 á vefnum timarit.is þar sem safnað hefur verið saman tæplega 1.200 titlum af prentuðum blöðum og tímaritum frá upphafi. Hægt er að lesa alla árganga Morgunblaðsins frá stofnun 1913 fram á seinni ár. Á hverju ári bætist nýr árgangur við.

27,3% þeirra sem heimsóttu timarit.is á árinu 2018 fóru inn á Morgunblaðið. Þetta er aukning frá árinu 2017, þegar sambærileg tala var 25,4%. Næstvinsælasti titillinn í fyrra var Dagblaðið-Vísir(DV) og síðan komu Tíminn, sem kom út árin 1917-1996, og Vísir. Fréttablaðið er í 5. sæti, sjónarmun á undan Þjóðviljanum, sem kom út 1936-1992.

Landsbókasafnið-Háskólabókasafn hannaði og rekur jafnframt vefinn timarit.is. Heimsóknir síðustu árin hafa verið fremur stöðugar og fer smám saman fjölgandi. Árið 2018 voru skráðar 1.257.203 heimsóknir og fjölgaði um rúmlega 90 þúsund milli ára. Flettingar voru 12.451.727. Þar af voru flettingar á Morgunblaðinu 3.398.932 og heimsóttar voru 1.187.620 blaðsíður.

Blöðin og tímaritin á timarit.is hafa að geyma, auk almenns fréttaefnis og auglýsinga, mikið efni á sviði bókmennta, sagnfræði, ættfræði, þjóðlífs, menningar, atvinnuvega og viðskipta. Jafnt og þétt bætast við safnið fleiri titlar. Þeir eru nú 1.181 og bættust 42 nýir við í fyrra.

Vefurinn timarit.is er einstakur í sinni röð í heiminum. Sambærilegir gagnagrunnar eru engir jafn víðtækir. Þá er allt efnið í opnum og ókeypis aðgangi. Mikið er um að fræðimenn og skólafólk noti vefinn við rannsóknir og ritgerðasmíð. Þá leita menn að ýmsu persónulegu efni og sér til fróðleiks og skemmtunar.

Á vefnum eru einnig blöð og tímarit frá Færeyjum og Grænlandi. Er það efni sett inn í samstarfi við landsbókasöfn landanna. Grænlenskt blað, Atuagagdliutit, er á lista yfir mest sóttu blöðin, í 7. sæti.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »