Sáttmálinn gildi óháð stöðu barna

Dómsmálið er höfðað með þeim rökum að í 102. grein …
Dómsmálið er höfðað með þeim rökum að í 102. grein útlendingalaga segi að óheimilt sé að vísa Íslendingi úr landi hafi hann átt hér fasta búsetu frá fæðingu samkvæmt þjóðskrá. mbl.is/​Hari

UNICEF á Íslandi áréttar að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna gildir um öll börn innan landamæra Íslands, óháð lagalegri stöðu þeirra. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá UNICEF á Íslandi í tilefni aðalmeðferðar í máli Ernu Reka, 19 mánaða gamallar stúlku, í héraðsdómi.

Greint er frá því á vef Stundarinnar að Erna hafi fæðst á Íslandi í apríl 2017. Fyrir héraðsdómi verður tekist á um úrskurð Útlendingastofnunar þess efnis að vísa skuli Ernu og foreldrum hennar úr landi.

„Öllum þeim sem koma að lífi barnsins ber að taka mið af grundvallarforsendu Barnasáttmálans um það sem barni er fyrir bestu. Sú forsenda á að hafa forgang fram yfir öll önnur sjónarmið,“ segir meðal annars í yfirlýsingu UNICEF.

Foreldrar Ernu, þau Nazife og Erion, sóttu um hæli á Íslandi 2015 og fengu atvinnuleyfi en var svo vísað úr landi. Skömmu síðar komu þau aftur til landsins og sóttu um dvalarleyfi. Umsókn þeirra var hafnað og niðurstaðan samþykkt af kærunefnd útlendingamála.

Dómsmálið er höfðað með þeim rökum að í 102. grein útlendingalaga segi að óheimilt sé að vísa Íslendingi úr landi hafi hann átt hér fasta búsetu frá fæðingu samkvæmt þjóðskrá, en lögheimili barna hælisleitenda og þeirra sem sótt hafa um dvalarleyfi eru skráð með öðrum hætti. Þá telja foreldrar Ernu að mismunandi skráning lögheimila barna sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem óheimilt sé að mismuna börnum á grundvelli stöðu foreldra þeirra.

mbl.is