Segist ekki vilja ræða ólöglegar upptökur

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel óforsvaranlegt að formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar ætli að halda fund til að ræða ályktanir sem hún vill sýnilega draga af illa sundurklipptum hljóðupptökum af veitingastofuspjalli sem aflað var með refsiverðum aðferðum.“

Þannig hefst yfirlýsing Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem Helga Vala Helga­dótt­ir, formaður stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar, las upp við upphaf opins fundar nefndarinnar í morgun. 

Bjarni, Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra, Gunn­ar Bragi Sveins­son og Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son voru boðaðir á fund­inn þar sem rædd er skip­an í sendi­herra­stöður vegna þess sem kom fram á Klaust­urupp­tök­um. Gunn­ar Bragi og Sig­mund­ur mættu ekki á fund­inn.

Í yfirlýsingu Sigmundar kemur fram að með því að halda opinn fund sé formaður nefndarinnar að hvetja „óprúttna aðila“ til að gerast enn aðgangsharðari í „ólöglegum og siðferðislega ámælisverðum aðgerðum gegn þingmönnum og öðrum sem gefa sig að vinnu fyrir almenning“.

Frá fundinum í morgun. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og …
Frá fundinum í morgun. Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftlirlitsnefndar, fyrir miðju. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur segir að engin formleg rannsókn hafi farið fram á tildrögum þess að ráðist var í hljóðupptökurnar á Klaustri. „Enginn veit hver tilgangurinn var í raun og sann. Ógjörningur er að segja til um hvað var klippt úr, hvað hefur verið soðið saman og hvernig að brotinu var staðið að öðru leyti.“

Vegna þess segir Sigmundur að það sé enginn siðferðislegur grundvöllur fyrir umræðunni sem formaður nefndar hafi boðað til. „Af þessum ástæðum ætla ég að vera fjarstaddur þegar formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar setur fund með upptökurnar einar og órannsakaðar í farteskinu.“

mbl.is