Þegar þú ert boðaður þá mætir þú

Helga Vala Helgadóttir, lengst til vinstri, á fundinum í morgun.
Helga Vala Helgadóttir, lengst til vinstri, á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, er ósátt við að Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmenn Miðflokksins, hafi kosið að senda frá sér yfirlýsingu í stað þess að mæta til fundar nefndarinnar í morgun. Hann var haldinn vegna ummæla Gunnars Braga á barnum Klaustri í nóvember um tilhögun skipunar í embætti sendiherra.

Sigmundur Davíð sagði í yfirlýsingunni engan siðferðislegan grundvöll vera fyrir umræðunni á fundinum og Gunnar Bragi sagðist ekki ætla að „taka þátt í þessari sýningu“. Boðað hafi verið til fundarins „í þeim annarlega tilgangi að koma höggi á andstæðinga“.

„Það er auðvitað rétt að alþingismönnum ber engin skylda til að mæta fyrir fastanefndir en það væri hægt að heimfæra það upp á alla,“ segir Helga Vala, spurð út í yfirlýsingu þeirra sem hún las upp í byrjun fundarins. Hún bætir við að hvergi séu til lagaboð um að forstöðumenn ríkisstofnana, ráðherrar eða aðrir mæti fyrir fastanefndir. Aftur á móti hafi það hingað til ekki hvarflað að neinum að sinna ekki slíkum fundarboðum.

„Ég vona að bæði forstöðumenn, forstjórar, embættismenn, ráðherrar og aðrir þeir sem eiga að koma fyrir fastanefndir þingsins fari ekki að líta á þessa tvo þingmenn sem einhverja fordæmisgjafa, af því að þá er hlutverk Alþingis í hættu,“ greinir Helga Vala frá og bendir á að hlutverk Alþingis sé að sinna löggjöf og eftirlitshlutverki. Enginn vilji afnema það hlutverk. „Þegar þú ert boðaður fyrir fastanefndir þá bara mætir þú.“ 

Hún segir að í þingskaparlögum komi ekkert fram um að hægt sé að handtaka fólk og færa til skýrslutöku líkt og í lögum um meðferð sakamála. „Að því leyti er rétt sem þeir segja að þeim ber ekki skylda til að mæta en hver er okkar borgaralega skylda?“

Hefur ekkert með skipanina að gera

mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurð hvort breyta þurfi reglum til að skylda fólk til að mæta fyrir fastanefndir kveðst hún eiga eftir að ræða hvort það er mögulegt við forseta Alþingis. Hugsanlega verður erindi beint til forsætisnefndar um hvort hún telur þörf á að breyta þingskaparlögum þess efnis.

„Hvað varðar aðrar ávirðingar sem á mig voru bornar þá nenni ég ekki að fara í það. Þeir verða að eiga það sjálfir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina