Úrkomudagarnir aldrei fleiri

Lýsandi dæmi yfir veðurfarið í Reykjavík í fyrra.
Lýsandi dæmi yfir veðurfarið í Reykjavík í fyrra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Úrkomudagar í Reykjavík voru óvenjumargir í fyrra og hafa aldrei verið fleiri frá því mælingar hófust eða 261 talsins. Hæsti hiti ársins á landinu mældist 24,7 stig á Patreksfirði en mesta frost mældist 25,6 stig í Svartárkoti og við Mývatn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands um tíðarfar í fyrra. 

Árið 2018 var úrkomusamt og nokkuð hlýtt. Úrkoma var yfir meðallagi á nær öllu landinu og úrkomudagar óvenjumargir bæði sunnan- og norðanlands. Sumarmánuðirnir voru svalir á suðvestanverðu landinu á meðan hlýtt var norðaustanlands. Sólarlítið var á suðvesturhluta landsins á árinu og hafa ekki mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík á einu ári síðan 1992. Júní og júlí voru óvenjuþungbúnir suðvestanlands. Hlýtt var síðustu tvo mánuði ársins. Vindur var í meðallagi á árinu.

Mesta frost ársins mældist -25,6 stig 21. janúar bæði í …
Mesta frost ársins mældist -25,6 stig 21. janúar bæði í Svartárkoti og við Mývatn.

Hlýtt fyrir norðan og austan

Ársmeðalhitinn var hæstur í Surtsey 6,3 stig. Lægsti ársmeðalhitinn var á Brúarjökli -1,7 stig, og lægstur í byggð í Svartárkoti, 1,7 stig.

Árið var fremur hlýtt, þá sér í lagi á Austur- og Norðausturlandi á meðan svalara var sunnan- og vestanlands. Ársmeðalhitinn var yfir meðallagi 1961 til 1990 á landinu öllu. 

Hæsti hiti ársins á landinu mældist 24,7 stig á Patreksfirði 29. júlí þegar snögg hitabylgja gekk yfir landið. Nokkuð óvenjulegt er að hámarkshiti ársins mælist á Vestfjörðum. Mesta frost ársins mældist -25,6 stig 21. janúar bæði í Svartárkoti og við Mývatn.

Hitinn fór hæst í 23,5 stig í Reykjavík en 20,5 stig á Akureyri

Hæsti hiti í Reykjavík mældist 23,5 stig 29.júlí en mest 20,5 stig á Akureyri 27.júlí. Lægsti hiti í Reykjavík mældist 9 stiga frost 19. janúar en á Akureyri mældist lægsti hitinn -13,6 stig 21. janúar. 

Árið var úrkomusamt. Úrkoma var yfir meðaltali áranna 1971 til 2000 og meðaltali síðustu tíu ára á flestum stöðum landsins. Fjöldi úrkomudaga á árinu var óvenjumikill bæði í Reykjavík og á Akureyri.

Úrkoma í Reykjavík mældist 1.054,9 mm, 28 prósent ofan meðallags áranna 1971 til 2000 en 20 prósent ofan meðallags síðustu tíu ára. Ársúrkoma hefur aðeins 7 sinnum mælst meiri frá upphafi samfelldra mælinga 1921, síðast 2007. Á Akureyri mældist úrkoman 695,9 mm, 34 prósent ofan meðallags 1971 til 2000 en 15 prósent ofan meðallags síðustu tíu ára. Úrkoman hefur aðeins tvisvar mælst meiri á Akureyri á einu ári, 2014 og 1989. Á Dalatanga mældist úrkoman 1975,2 mm, um 32 prósent umfram meðallag áranna 1971 til 2000. 

„Úrkomudagar í Reykjavík voru óvenjumargir, 261 og hafa aldrei verið fleiri. Næstflestir voru úrkomudagarnir árið 1953 og 1989, 255 talsins. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 183, 35 fleiri en að meðaltali 1961 til 1990 og hafa aðeins tvisvar verið fleiri, 1953 og 1921. Úrkomudagar voru einnig óvenjumargir á Akureyri, 209, og hafa aðeins þrisvar verið fleiri á einu ári, flestir 224 árið 2014. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 131, 28 fleiri en í meðalári.

Mesta sólarhringsúrkoma ársins á sjálfvirkri stöð mældist 134,7 mm í Neskaupstað 1. desember.

Mest mældist sólarhringsúrkoman í Reykjavík 47,7 mm, 18. nóvember, en helgina 16. til 18. nóvember féllu 83,2 mm á tveimur sólarhringum, sem er mesta úrkoma sem mælst hefur á tveimur sólarhringum í Reykjavík. Á Akureyri mældist sólarhringsúrkoman mest 37,1 mm 30.nóvember. Sú úrkoma féll sem snjór,“ segir í yfirliti Veðurstofunnar sem birt var í gær.

Yfir 100 cm snjór var á Akureyri í byrjun desember.
Yfir 100 cm snjór var á Akureyri í byrjun desember. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Haustið með snjóléttasta móti

Alhvítir dagar í Reykjavík voru 38 sem er 26 færri en meðaltal áranna 1971 og 2000. Þó nokkur snjór var í Reykjavík í janúar og febrúar en mars var alauður sem hefur ekki gerst síðan í mars 2005. Lítillega snjóaði í maí en haustið var svo með snjóléttasta móti og hafa alhvítir dagar einungis verið 4 frá því í maí.

Alhvítir dagar ársins á Akureyri voru 98, tíu færri en meðaltal áranna 1971 og 2000. Á Akureyri var töluverður snjór í janúar og febrúar og þar til um miðjan mars. Alhvítir dagar voru færri en að meðallagi á Akureyri síðari hluta árs en mikill snjór féll þó í lok nóvember og byrjun desember. Þann 30. nóvember mældist snjódýpt 75 cm sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur á Akureyri nóvembermánuði og þann 3. desember mældist snjódýpt 105 cm sem er mesta snjódýpt sem mælst hefur þar í desembermánuði. Mesta snjódýpt á árinu mældist 109 cm við Skeiðsfossvirkjun 4. desember.

Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir á einu ári síðan …
Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir á einu ári síðan 1992. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki færri sólarstundir í júní síðan 1914

Sólarlítið var á suðvesturhluta landsins á árinu. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 1.162,8, 106 færri en í meðalári 1961 til 1990, en 245 stundum færri en að meðallagi síðustu tíu ár. Ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir á einu ári síðan 1992.

Júní og júlí voru sérlega þungbúnir á suðvesturhorninu og ekki hafa mælst eins fáar sólskinsstundir í Reykjavík í júnímánuði síðan 1914. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1.016,7 eða 28 færri en að meðaltali 1961 til 1990 og 40 færri en að meðallagi síðustu tíu ára.

Hér er hægt að lesa yfirlitið í heild

mbl.is