100 milljóna uppgröftur á eigin kostnað

Leirvogstunga í Mosfellsbæ.
Leirvogstunga í Mosfellsbæ. Rax / Ragnar Axelsson

Eigandi lóðar í Leirvogstungu í Mosfellsbæ hefur krafist þess að bæjaryfirvöld og Minjastofnun Íslands hefji uppgröft eftir fornleifum á lóðinni hið fyrsta á þeirra kostnað. Einnig krefst hann þess að Mosfellsbær og Minjastofnun viðurkenni bótaskyldu vegna tjóns sem hann hefur orðið fyrir og muni verða fyrir.

Málið er þannig vaxið að eigandinn festi kaup á einbýlishúsalóðinni Leirvogstungu 25 í maí árið 2016 og hóf í framhaldinu undirbúning að uppbyggingu hennar. Byggingaráformin voru samþykkt af Mosfellsbæ í janúar í fyrra og var byggingaleyfið veitt í október síðastliðnum, að því er kemur fram í bréfi lögmanns eigandans til bæjarlögmanns Mosfellsbæjar en málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í morgun.

Minjastofnun Íslands sendi Mosfellsbæ bréf tæpri viku eftir að byggingarleyfið var veitt þar sem fram kemur að útgáfa leyfisins hafi verið í andstöðu við lög um menningarminjar. Mosfellsbær afturkallaði því byggingarleyfið. Minjastofnun sendi eiganda lóðarinnar í framhaldinu bréf þar sem kemur fram að uppgröftur þurfi að fara fram á hans kostnað áður en hann geti byggt á lóðinni. 

Gæti tekið mörg ár

Í desember síðastliðnum fundaði eigandinn með fulltrúum Minjastofnunar og Mosfellsbæjar þar sem fram kom að uppgröftur eftir fornleifum á lóð hans kynni að taka mörg ár og að framangreind stjórnvöld teldu þessar athafnir tengdar fornleifum vera í samræmi við lög. Minjastofnun hélt því fram að eigandinn ætti að beina kröfum sínum vegna tjóns til viðsemjanda síns, LT lóða ehf. Einnig benti Minjastofnun á að hún teldi að kostnaður við uppgröft gæti hæglega farið yfir 100 milljónir króna, að því er segir í bréfi lögmanns hans. 

Eigandi lóðarinnar byggir mál sitt á því að málsmeðferð Mosfellsbæjar vegna fornleifa á lóðinni hafi verið í ósamræmi við lög. Hann telur að við undirbúning að gerð deiliskipulags íbúðarbyggðar í Leirvogstungu, sem tók gildi í júní árið 2006 og lóðin tilheyrir, hafi fornleifaskráningu verið áfátt. Ekki hafi verið rannsakað umfang fornleifa innan alls skipulagssvæðisins með vísan til þágildandi þjóðminjalaga sem Fornleifavernd ríkisins (nú Minjastofnun) beri ábyrgð á.

Í bréfi sem Fornleifavernd ríkisins sendi Mosfellsbæ árið 2005 kemur fram að allt bæjarstæði bæjarins Leirvogstungu sé innan áætlaðs framkvæmdasvæðis. Óljóst sé hvert umfang fornleifa sé og hvar þær liggi. Þess vegna sé nauðsynlegt að gera könnunarskurði til að kanna umfangið áður en gengið verði frá deiliskipulagi.

Engar rannsóknir farið fram

Í bréfi Fornleifaverndar til Mosfellsbæjar árið 2006 segir að Fornleifavernd heimili samþykkt deiluskipulags Leirvogstungu með þeim fyrirvara að umfang bæjarins Leirvogstungu verði rannsakað áður en framkvæmdir á svæðinu geti hafist. Fyrir liggur í samskiptum milli Fornleifaverndar og forsvarsmanns þáverandi eiganda skipulagssvæðisins, Leirvogstungu ehf., að Fornleifavernd heimilaði félaginu að bíða með rannsóknirnar og að þær hafi aldrei farið fram, að því er segir í bréfinu.

Eigandinn byggir mál sitt á því að Mosfellsbæ hafi verið óheimilt að samþykkja deiliskipulagið án þess að fullnægjandi fornleifaskráning hefði farið fram.

Grandleysi Mosfellsbæjar

„Mosfellsbær samþykkti byggingaráform umbjóðanda míns og veitti honum byggingarleyfi. Umbjóðandi minn hafði réttmætar væntingar til að geta nýtt umrætt leyfi. Mosfellsbær ber fyrir sig grandleysi um að Leirvogstunga ehf. hafi ekki látið fara fram fullnægjandi rannsóknir í samræmi við fyrirvara Fornleifaverndar ríkisins vegna samþykktar deiliskipulagsins og að það svæði þar sem lóðin er hafi verið sett á bið einvörðungu með samþykki Fornleifaverndar,“ skrifar lögmaður eigandans í bréfinu.

„Umbjóðandi minn hafnar því að meint grandleysi Mosfellsbæjar leysi sveitarfélagið undan ábyrgð enda var sveitarfélaginu heimilað að samþykkja deiliskipulag Leirvogstungu með fyrirvara um frekari rannsóknir á svæðinu.“

Fram kemur einnig að eigandi lóðarinar áskilji sér rétt til að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum og/eða dómstólum og er þess krafist að brugðist verði við erindinu eigi síðar en á morgun.

Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að fela lögmanni bæjarins að svara erindi lögmannsins.

mbl.is