Segir dóttur sína hafa verið dómfellda

Gerður hefur sent alþingismönnum bréf þar sem hún óskar breytinga …
Gerður hefur sent alþingismönnum bréf þar sem hún óskar breytinga á lögum, til að mál dóttur hennar megi verða endurupptekið fyrir Hæstarétti. Hún segir dóminn hafa logið upp á dóttur sína. mbl.is/Golli

Gerður Berndsen, móðir Áslaugar Perlu Kristjónsdóttur, sem lést eftir að henni var hrint yfir svalahandrið í fjölbýlishúsi við Engihjalla í Kópavogi árið 2000, hefur sent póst á alla alþingismenn með ósk um að lögum um meðferð sakamála verði breytt á þann veg að hægt sé að taka málið upp að nýju.

Gerður Berndsen.
Gerður Berndsen.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Gerðar í Morgunblaðinu í dag, en hún vill að málið sé tekið aftur upp þar sem í dómi Hæstaréttar sé dóttir hennar „dómfelld fyrir að eiga harkalegar samfarir við ákærða,“ Ásgeir Inga Ásgeirsson, sem hlaut sextán ára fangelsisdóm fyrir morðið eftir að Hæstiréttur þyngdi dóm Héraðsdóms Reykjaness.

„Dóttur minni var nauðgað. Dómurinn laug upp á hana,“ skrifar Gerður í grein sinni, en hún hefur um árabil þrýst á stjórnvöld um endurupptöku málsins, vegna órannsakaðrar nauðgunar, sem hún telur ljóst af gögnum málsins að hafi átt sér stað.

Beiðni Gerðar til alþingismanna snýst um að lögunum verði breytt á þá vegu að ættingjar eða makar látinna einstaklinga sem voru fórnarlömb glæpa geti farið fram á endurupptöku fyrir hönd þeirra látnu, en árið 2015 var lögum um meðferð sakamála breytt á þann veg að endurupptökunefnd gæti orðið við beiðni ættingja eða maka þeirra sem hafa verið dæmdir til refsingar um endurupptöku mála.

Þetta var gert vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, til þess að ættingjar látinna sakborninga í því máli gætu lagt fram beiðni um endurupptöku fyrir þeirra hönd.

Þar sem Áslaug Perla var hins vegar fórnarlamb glæpsins er ættingjum hennar ekki heimilt að óska endurupptöku. Því vill Gerður að sé breytt, sem áður segir.

Grein Gerðar Berndsen í Morgunblaðinu

mbl.is