Draumurinn að fylgja strákunum alla leið

Benni Bongó hefur hvatt íslenska liðið áfram með trommuna og …
Benni Bongó hefur hvatt íslenska liðið áfram með trommuna og lögregluhattinn að vopni. Ljósmynd/Sérsveitin

„Þetta er æðislegt móment,“ sagði Benja­mín Hall­björns­son, betur þekktur sem Benni Bongó, syngjandi sæll og glaður þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum símleiðis eftir sigurinn gegn Makedóníu. „Við vorum að koma af DJ-svæðinu þar sem við kaffærðum Króatana, þeir voru að undirbúa sig fyrir leik en Íslendingarnir komu í sigurvímu eftir góðan leik og kaffærðu þá með Ferðalokum og annarri eins gleði.“

Benni er einn liðsmanna í Sér­sveit­inni, nýstofnuðu stuðningsliði ís­lensku hand­bolta­landsliðanna, sem hefur haldið uppi stemningunni á öllum fimm leikjum Íslands í riðlinum. „Þessi leikur var frábrugðinn hinum [að því leytinu] að styrkleikur liðanna var svipaður og við vildum vinna þó að jafntefli væri nóg, á meðan þeir þurftu að sigra,“ segir Benni.

Færri Íslendingar voru á leiknum en fyrri leikjum liðsins en Benni segir að það hafi ekki komið að sök. „Það voru færri Íslendingar en meiri læti. Þetta var geggjuð upplifun og frábær stemning og gaman að sjá liðið svona vel peppað. Þeir voru svo tilbúnir í að klára verkefnið, hikstuðu aðeins í byrjun og á köflum en um leið og við duttum tveimur mörkum yfir fann maður að þeir voru að fara að landa þessu.“

Þurfa að ræða við HSÍ um framhaldið

Ísland mun spila leikina þrjá í milliriðlum í Köln en ekki er víst hvort Sérsveitin muni fylgja liðinu áfram. „Við eigum flug heim í fyrramálið og nú þurfum við bara að taka samtal við HSÍ og hugsa okkar mál aðeins. Við lögðum upp með fimm leikja ferð og nú er hún á enda komin og framhaldið er óráðið, næstu klukkutímar munu leiða það í ljós,“ segir Benni.

Tíu manns eru aðalmenn Sérsveitarinnar ef svo má segja og þeim fylgir heilmikill búnaður. „Við erum tíu manns með nítján töskur þannig að þetta er heljarinnar fyrirtæki en maður leggur þetta á sig fyrir land og þjóð, þetta er ógeðslega gaman,“ segir Benni, sem er meira en til í að fylgja strákunum okkar áfram. „Vissulega væri það ógeðslega gaman. Það væri draumur að fylgja þeim alla leið. Þetta er frábært lið og  gaman að sjá þessa ungu stráka slá svona í gegn, þeir eru svo óhræddir og þetta er svo geggjað gaman.“

Íslensku stuðningmennirnir hafa látið vel í sér heyra á leikjum …
Íslensku stuðningmennirnir hafa látið vel í sér heyra á leikjum liðsins í Munchen. Nú liggur leiðin til Kölnar þar sem milliriðillinn verður spilaður. Ljósmynd/Sérsveitin

Tvö stórmót í fótbolta en fyrsta handboltastórmótið

Þetta er fyrsta stórmótið í handbolta sem Benni fer á en hann hefur fylgt íslenska fótboltalandsliðinu á EM og HM þar sem hann er lykilmaður í Tólfunni, stuðningsmannasveit liðsins. En er einhver munur á að fylgja eftir handboltalandsliðinu og fótboltalandsliðinu?

„Já, það er gríðarlegur munur. Í handboltanum eru ekki þessi ferðalög milli borga á milli leikja. HSí tengdi okkur við starfsmenn hallarinnar sem aðstoðuðu okkur alveg gríðarlega og þau geymdu trommurnar okkar í húsinu. Svoleiðis hlutir voru þægilegri en í fótboltanum þar sem maður þarf alltaf að burðast með þetta.“

Þá segir hann muninn á hraða íþróttanna einnig hafa mikið að segja um hvernig stuðningurinn er byggður upp. „Tempóið er allt öðruvísi í handboltanum. Að sjá 50-60 mörk að meðaltali í einum leik er náttúrulega bara allt öðruvísi, þetta er allt annað svið. Í fótboltanum hefurðu nægan tíma til að syngja um hinn og þennan en hérna, ef þú ætlar að byrja á húh-inu eða Ferðalokum í miðjum leik þegar þú ert þremur mörkum yfir þá ertu kannski bara fjórum mörkum undir þegar þú ert búinn að syngja.“

Þó að Benni sé ef til vill meira á heimavelli í fótboltanum er hann í skýjunum með sína fyrstu upplifun af stórmóti í handbolta „Þetta er öðruvísi og við erum að reyna að finna okkur með íslenskum stuðningsmönnum hvernig við viljum hafa þetta og okkur miðar ágætlega áfram í því finnst mér,“ segir hann að lokum.

Sérsveitin hefur haldið uppi stemningu fyrir alla fimm leiki Íslands …
Sérsveitin hefur haldið uppi stemningu fyrir alla fimm leiki Íslands í riðlakeppninni. Ljósmynd/Sérsveitin
mbl.is