Flugakademían kaupir Flugskóla Íslands

Flugakademía Keilis hefur fest kaup á Flugskóla Íslands.
Flugakademía Keilis hefur fest kaup á Flugskóla Íslands. Ljósmynd/Keilir

Flugakademía Keilis hefur fest kaup á Flugskóla Íslands og er samanlagður fjöldi nemenda í flugskólunum á fimmta hundrað, að því er segir í fréttatilkynningu.

Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á starfsemi skólanna í fyrstu og mun verkleg flugkennsla fara fram bæði á Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvelli. Þá segir að vinna við að efla starfsstöðvar á landsbyggðinni muni halda áfram, eru í því samhengi nefndar starfsstöðvar á Selfossi og Sauðárkróki.

„Við erum afskaplega ánægðir með kaupin og teljum þau styrkja mjög flugkennslu á landinu. Flugakademía Keilis er ung að árum en hefur vaxið hratt og mun sú mikla reynsla og þekking stjórnenda og kennara Flugskóla Íslands hafa jákvæð áhrif á það starf sem við höfum byggt upp undanfarin ár,“ segir Rúnar Árnason, forstöðumaður Flugakademíu Keilis.

mbl.is