Forsætisráðherra heimsótti Hæstarétt

Katrín Jakobsdóttir forsætirsráðherra ásamt starfsfólki Hæstaréttar.
Katrín Jakobsdóttir forsætirsráðherra ásamt starfsfólki Hæstaréttar. Ljósmynd/Hæstiréttur

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra heimsótti Hæstarétt í dag og kynnti sér starfsemi réttarins. Er þetta í fyrsta skipti sem forsætisráðherra heimsækir réttinn í þessum tilgangi.

Fram kemur á vefsíðu Hæstaréttar að í heimsókninni hafi verið rætt um starfsemi réttarins allt frá stofnun hans 1920 og þá sérstaklega hvaða breytingar ný dómstólaskipan, sem tók gildi 1. janúar 2018, hefur á starfsemi Hæstaréttar.

Með breytingunum sem tóku gildi í fyrra tók Landsréttur við hlutverki Hæstaréttar sem áfrýjunardómstóll en Hæstiréttur dæmir einungis í fordæmisgefandi málum.

Meðal þess sem fram kom í heimsókn forsætisráðherra var að á árinu 2018 hefði Hæstiréttur gegnt tvöföldu hlutverki, annars vegar að ljúka þeim málum sem til hans var skotið samkvæmt eldri dómstólaskipan en þau voru 270 talsins, og hins vegar að innleiða breytt verklag í nýrri dómstólaskipan.

Þá kom fram að Hæstarétti hefðu á árinu 2018 borist 64 beiðnir um áfrýjunar- og kæruleyfi. Um áramót hefðu 54 beiðnir verið afgreiddar og fallist á að veita leyfi í 10 tilvikum sem er 18,5% hlutfall. Til samanburðar má geta þess að Hæstarétti Noregs bárust 800 beiðnir á árinu 2017 um leyfi til áfrýjunar dóma og var leyfi veitt í 114 tilvikum sem er 14,25% hlutfall. Dómarar í Hæstarétti Íslands eru átta en 20 í Hæstarétti Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert