„Hefði getað farið illa“

Vélsleðinn dreginn upp úr.
Vélsleðinn dreginn upp úr. Ljósmynd/Skagfirðingasveit

Björgunarsveitin Skagfirðingasveit fékk á þriðjudaginn útkall um að vélsleðamaður hefði fallið í gegnum vök. Nokkrum mínútum síðar var útkallið afturkallað eftir að maðurinn komst upp af sjálfsdáðum. Síðar um daginn tóku tíu liðsmenn sveitarinnar þátt í að draga vélsleðann upp sem hafði setið eftir í vökinni en stýrið stóð upp úr henni.

Framkvæmdin tók um tvo og hálfan tíma, að sögn Stefáns Vals Jónssonar, varaformanns Skagfirðingasveitar.

Fjórir úr björgunarsveitinni hættu sér út á ísinn. Stefán Valur …
Fjórir úr björgunarsveitinni hættu sér út á ísinn. Stefán Valur er lengst til vinstri. Ljósmynd/Skagfirðingasveit

Vökin var á Áshildarholtsvatni, rétt neðan við Sauðárkrók, og var jeppi notaður til að draga sleðann upp. Fjórir björgunarsveitarmenn fóru út á vökina, þar á meðal Stefán Valur, til að setja spotta í sleðann.

Ljósmynd/Skagfirðingasveit

Stefán Valur segir að vélsleðamaðurinn hafi sloppið vel. Hann hafi komist hjá því að falla ofan í vökina með því að stökkva upp á stýrið og fram á húddið og koma sér þannig upp á ísinn. „Hann var stálheppinn vegna þess að ísinn var ekki þykkur. Þetta hefði getað farið illa.“

mbl.is