37,5% hækkun hámarksframlags til flokka

Þeir sem hyggjast sækjast eftir kjöri til Alþingis munu nú …
Þeir sem hyggjast sækjast eftir kjöri til Alþingis munu nú starfa eftir nýjum lögum um hámarksframlög. mbl.is/​Hari

Ríkisendurskoðun hefur gefið út leiðbeiningar vegna breytinga á lögum um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra sem samþykkt voru 21. desember síðastliðinn og tóku gildi um áramótin.

Frá og með 1. janúar varð hámarksframlag einstaklinga og lögaðila til stjórnmálasamtaka ár hvert 550 þúsund krónur, en var 400 þúsund áður og nemur því 37,5% hækkun heimildar. Félögum innan stjórnmálasamtaka verður jafnframt heimilt að taka við 100 þúsund krónum umfram hámarksframlagið.

Ef um stofnframlag er að ræða er hámarksframlag takmarkað við 1,1 milljón króna.

Þá hefur skilgreind upphæð sem kallar á upplýsingaskyldu stjórnmálasamtaka og einstaklinga sem taka þátt í persónukjöri einnig hækkað. Áður var skylda að upplýsa og birta opinberlega alla styrki sem voru 200 þúsund krónur eða meira, nú er gert ráð fyrir að upphæðin þurfi að vera 300 þúsund eða meira.

Einstaklingar sem taka þátt í persónukjöri munu ekki sjá breytingar í takmörkunum hvað framlög varðar og verður hámarksframlag til þeirra áfram 400 þúsund krónur.

Hins vegar voru gerðar breytingar á takmörkun kostnaðar við persónukjör hvort sem það sé í tengslum við alþingis-, sveitarstjórnar- eða forsetakosningar. Hámarkskostnaður er nú sagður vera 2 milljónir króna og til viðbótar kostnaður sem miðast af íbúafjölda með eftirfærandi hætti:

  • Á kjörsvæði með fleiri en 50.000 íbúa, 18 ára og eldri, 140 kr. fyrir hvern íbúa.
  • Á kjörsvæði með 40.000–49.999 íbúa, 18 ára og eldri, 185 kr. fyrir hvern íbúa.
  • Á kjörsvæði með 20.000–39.999 íbúa, 18 ára og eldri, 230 kr. fyrir hvern íbúa.
  • Á kjörsvæði með 10.000–19.999 íbúa, 18 ára og eldri, 275 kr. fyrir hvern íbúa.
  • Á kjörsvæði með færri en 10.000 íbúa, 18 ára og eldri, 320 kr. fyrir hvern íbúa.
mbl.is