Minnsta fjölgun ferðamanna síðan 2010

Rúmlega 2,3 milljónir erlendra ferðamanna sóttu Ísland heim á síðasta …
Rúmlega 2,3 milljónir erlendra ferðamanna sóttu Ísland heim á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fjöldi erlendra ferðamanna sem sótti Ísland heim nam rúmlega 2,3 milljónum á síðasta ári. Ferðamönnum fjölgaði um 5,5% milli 2017 og 2018 og er þetta minnsta fjölgun ferðamanna síðan árið 2010 en þá fækkaði ferðamönnum um 1,1% frá árinu áður.

Þetta kemur fram í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

Þessi fjölgun sker sig verulega frá þróun síðustu ára en meðalfjölgun erlendra ferðamanna var 25,2% á árunum 2011-2017. Á þessu tímabili fimmfaldaðist fjöldi erlendra ferðamanna sem sótti Ísland heim.

Fækkun hjá 11 löndum af 17

Um 17 þjóðir eru flokkaðar og taldar sérstaklega inn í landið. Af þeim fjölda fjölgaði ferðamönnum frá einungis sex löndum milli ára á síðasta ári og fækkun varð hjá 11 löndum, eða 65% þeirra. Þetta er hæsta hlutfall þjóða hvaðan ferðamönnum fækkar síðan árið 2010. Þá fækkaði einnig ferðamönnum frá 11 löndum en það ár voru 16 þjóðir taldar og flokkaðar sérstaklega inn í landið.

Japönum fækkaði mest hlutfallslega

Hlutfallslega fækkaði Japönum mest á síðasta ári eða um 14,6% frá árinu áður. Næstmesta fækkunin var hjá Finnum (12,9%) og Svíum (12,3%) en fækkun var milli ára frá öllum Norðurlandaþjóðunum, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Árið í fyrra var það fjórða í röð þar sem Norðmönnum fækkar milli ára en þeim fækkaði um 8,8% frá fyrra ári. Fækkun Norðmanna hefur þó verið fremur lítil á síðustu árum en meðalfækkunin á árabilinu 2015-2018 nemur 4,9%.

Fækkun varð frá hinum Norðurlöndunum þremur í fyrsta skiptið síðan 2010 fyrir utan Svíþjóð en Svíum fækkaði lítillega milli áranna 2012 og 2013.

Mesta hlutfallslega fjölgunin var hjá Pólverjum en þeim fjölgaði um 38% milli ára. Næstmesta fjölgunin var hjá Rússum, 20,8%, en í þriðja sæti voru Bandaríkjamenn með 20,5% fjölgun. Síðasta ár var það tíunda í röð sem Bandaríkjamönnum fjölgar milli ára.

mbl.is