Segja frá áreitni á vinnustöðum

„Byltingar á borð við #metoo hafa rutt veginn fyrir breytingar …
„Byltingar á borð við #metoo hafa rutt veginn fyrir breytingar í samfélaginu en það er ekki nóg að viðurkenna vandann og segjast fordæma áreitni,“ segir meðal annars í lýsingu á samstöðufundi sem Ungar athafnakonur standa fyrir í kvöld þar sem afleiðingar og eftirfylgni vegna áreitni á vinnustað verður til umfjöllunar. mbl.is/Eggert

„Hvað þarf að gerast svo hér ríki vinnufriður?“ Þetta er spurning sem félagið Ungar athafnakonur (UAK) ætlar að leita svara við á samstöðufundi í kvöld þar sem rætt verður um afleiðingar og eftirfylgni vegna áreitis á vinnustað.

„Byltingar á borð við #metoo hafa rutt veginn fyrir breytingar í samfélaginu en það er ekki nóg að viðurkenna vandann og segjast fordæma áreitni. Við viljum að stjórnvöld og leiðtogar í atvinnulífinu skilgreini hvaða afleiðingar og eftirfylgni áreitni á vinnustað hafi fyrir gerendur og þolendur,“ segir í lýsingu á viðburðinum á Facebook.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa og hefur fjöldi kvenna sagt frá reynslusögum af kynferðislegri áreitni á vinnustöðum undir myllumerkinu #vinnufriður.

Langflestir hafa lent í því að hafa verið áreittir á vinnustað“

„Við félagskonur byrjuðum að setja inn okkar reynslusögur og svo var markmiðið á fundinum að kynna þetta og fá alla til að gera slíkt hið sama. Svo bara fór þetta aðeins á flug í gærkvöldi og í morgun af því að það virðist vera að það haf[i] allir eitthvað að segja tengt þessu. Langflestir hafa lent í því að hafa verið áreittir á vinnustað,“ segir Sigyn Jónsdóttir, formaður Ungra athafnakvenna, í samtali við mbl.is.

Stjórn Ungra athafnakvenna 2018-2019: Anna Berglind Jónsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir, Sigyn …
Stjórn Ungra athafnakvenna 2018-2019: Anna Berglind Jónsdóttir, Kolfinna Tómasdóttir, Sigyn Jónsdóttir, Ásbjörg Einarsdóttir, Auður Albertsdóttir og Snæfríður Jónsdóttir. mbl.is/Stella Andrea

UAK hefur verið starfandi síðan 2014 og vill félagið stuðla að samfélagi þar sem konur og karlar standa jafnfætis og bjóðast sömu tækifæri. Markmið félagsins er að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnendur og þátttakendur í atvinnulífinu. Sigyn segir að í kjölfar #metoo-byltingarinnar hafi skapast ákveðinn vettvangur fyrir konur til að stíga fram og greina frá áreitni sem þær hafa orðið fyrir, til dæmis á vinnustöðum. „En á sama tíma er illa skilgreint, eða maður þekkir alla vega ekki nákvæmlega við hverju má búast frá vinnuveitanda eftir að stíga fram. Hvaða afleiðingar hefur það fyrir gerandann og hvaða eftirfylgni á að eiga sér stað?“

Á samstöðufundinum í kvöld munu Klara Óðinsdóttir lögfræðingur, Elísabet Brynjarsdóttir, forseti stúdentaráðs HÍ, og Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, fjalla um afleiðingar og eftirfylgni vegna áreitis á vinnustað og jafnvel segja frá sinni reynslu.

Fundurinn fer fram á Kex Hostel í kvöld og hefst hann klukkan 20. Þetta er fyrsti viðburður Ungra athafnakvenna á þessu ári og segir Sigyn það virkilega jákvætt að hefja árið með hvelli. „Það er góð byrjun ef við fáum sem flesta til að mæta og tala saman um þetta, hlusta á mjög flottar kvenfyrirmyndir segja frá sínu sjónarhorni á málið.“ Þá segir hún að óskaniðurstaðan væri að smíða yfirlýsingu eða áskorun á fundinum sem send yrði á stjórnvöld og leiðtoga í atvinnulífinu.

Hér má sjá fleiri reynslusögur sem birst hafa á samfélagsmiðlum í dag undir myllumerkinu #vinnufriður:


mbl.is